Lífið

Seinni hálfleikur að hefjast

Mynd/Stefán Karlsson
"Þetta eru dálítil tímamót, það er alveg ljóst. Maður fær að minnsta kosti þá tilfinningu að seinni hálfleikur sé að hefjast," segir Arnór Guðjohnsen knattspyrnumaður spurður hvernig honum finnist að vera fimmtugur í dag. "Ég ætla pottþétt að halda upp á afmælið en þetta er verslunarmannahelgi og erfitt að ná fólki saman, þannig að ég fresta því eitthvað."

Arnór er Þingeyingur í húð og hár. "Ég fæddist á Húsavík og átti þar heima fyrstu níu árin." Í fótboltafjölskyldu? "Já, pabbi var að sprikla með Völs-ungi á Húsavík og það kviknaði rosalega fljótt áhugi hjá mér. Ég fór með honum á flestallar æfingar, var svo með boltann á tánum á daginn og svaf með hann í fanginu á nóttunni." Hann segir mikinn spenning hafa verið fyrir fótbolta á Húsavík á þessum tíma og yngri flokkana oft farið langleiðina í úrslit. "Svo eltist maður og efldist og þegar ég áttaði mig á að ég gat eitthvað þá stefndi hugurinn í atvinnumennskuna," segir Arnór.

"Við strákarnir höfðum sterka fyrirmynd sem var Ásgeir Sigurvinsson og það var alltaf draumur að feta í fótspor hans. Ég og Pétur Pétursson fórum út 1978, í kjölfarið var farið að fylgjast með íslenska markaðinum og næstu árin fór þó nokkuð af strákum út," rifjar hann upp.

Arnór var 12 ár í Belgíu, tvö í Frakklandi og sex í Svíþjóð. "Þetta var gríðarlega mikill skóli. Ég kynntist mörgu fólki, mikilli velgengni og minni velgengni. Öllum pakkanum. Besti árangurinn var í Belgíu. Árin tvö í Frakklandi voru góð en félagið mitt, Bordeaux, lenti í ákveðnum fjárhagserfiðleikum. Ég spilaði þar með mörgum góðum drengjum sem síðar urðu heimsmeistarar með Frökkum. Svo leið mér rosalega vel í Svíþjóð."

Þótt minna fari fyrir Arnóri á vellinum nú er hann að vinna við knattspyrnuna, meðal annars sem umboðsmaður afreksmanna. "Mér líður best í þessum blessaða fótboltaheimi, eitthvað að stússast," segir hann. "Aðallega hef ég verið að vinna fyrir strákinn minn, hann Eið Smára og svo eru tveir, þrír aðrir sem ég er að sinna."

Allir þekkja árangur Eiðs Smára í boltanum, auk hans á Arnór tvo syni sem báðir eru knattspyrnuáhugamenn, annar er nýorðinn 18 ára, hinn verður 11 ára í september. "Svo á ég þrjá afastráka," tekur Arnór fram. "Sá elsti er þegar kominn með gríðarlegan áhuga á boltanum."

gun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.