Innlent

Dæmi um ógnir við vörslusviptingu

Lánþegi segir fjármögnunarfyrirtæki hafa sent kraftajötunn að heimili sínu að kvöldi sem krafðist vörslusviptingar með óljósum hótunum. Innanríkisráðherra segir ráðuneytinu hafa borist fjöldi ábendinga um að fjármögnunarfyrirtæki fari fram með offorsi við vörslusviptingar.

Innanríkisráðuneytið varaði í dag við lögbrotum vegna vörslusviptinga, en á undanförnum mánuðum hefur ráðuneytinu borist kvartanir um slíkt framferði fjármögnunarfyrirtækja. „Ég hef fengið ábendingar og umkvartnir frá aðilum sem segja að farið sé fram af miklu offarsi við vörsluskiptingar," segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.

Í aðvörun ráðuneytisins kemur fram að þeir sem framkvæmi vörslusviptingar verði ávallt að hafa til þess skýra heimild.

Lögmaðurinn Sævar Þór Jónsson höfðaði mál vegna vörslusviptinga fyrr á þessu ári. Hann segir að umbjóðendum sínum hafa verið ógnað af þeim sem framkvæmdu vörslusviptinguna fyrir fjármögnunarfyrirtækið. „Þá tóku umbjóðendur mínir eftir því að setið var fyrir heimili þeirra. Það kom fílefldur einstaklingur til þeirra og bankaði upp hjá þeim. Framkoma þessa einstaklings var með þeim hætti að umbjóðendum mínum fannst þeim vera verulega ógnað."

Sævar segist vita um tvö önnur slík dæmi. „Þar sem mínum umbjóðendum hefur fundist þeim verulega ógnað þar sem þeir fá óljósar hótanir sem geta falið í sér líkamlegt ofbeldi."

Hinrik Laxdal, er umbjóðandi Sævars. Hann segir þrekvaxinn og ógnandi mann hafa komið heim til sín að kvöldi þegar konan hans var ein heima. Maðurinn sem var í umboði fjármögnunarfyrirtækis krafðist þess að fá fellihýsi hjónanna afhent. „Hann var með stæla og ógnandi við hana. Hún er ekki vön að taka á móti svona fólki á tröppunum heima."

Hinrik segir reynsluna ekki þægilega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×