Innlent

Lýsa siglingunni til Íslands sem svaðilför

Bandaríska skólaskipið Eagle liggur nú við Reykjavíkurhöfn. Skipið er glæsileg þriggja mastra skúta sem siglir um heimsins höf með nemendur í bandarísku strandgæslunni innanborðs.

Örninn er glæsilegt fley og ekki að undra að fjöldi ferðamanna lagði leið sína að skipinu í dag til að berja það augum. Örninn var smíðaður í Hamburg í Þýskalandi árið 1936, hugsað sem skólaskip fyrir þýska flotann, en Bandaríkjamenn fengu skipið í skaðabætur að stríðinu loknu. Nú sinnir það enn sínu upprunalegu hlutverki, um 200 nemendur í yfirmannaskóla bandarísku strandgæslunnar manna skipið á löngum siglingum þess um heimsins höf.

Sam Kobe og Ryan More, hásetar í Eagle, komu um borð fyrir um sex vikum í London. Þeir lýsa siglingunni til Íslands sem svaðilför. „Já, þetta var svaðilför. Á leiðinni hingað frá London var 25 til 30 hnúta vindur. Skipið hallaðast allan tímann um 20 gráður. Þetta var klikkun," segir Sam.

Spurður hvort skólinn sé ekki skemmtilegur segir Ryan: „Já, þetta er skemmtilegi hlutinn. Afganginn af árinu er það bóknám en hérna fáum við að nota það sem við lærum."

Og námið er ekki alltaf auðvelt. Á leiðinni til Íslands upplifðu skipverjarnir ölduhæð allt upp í 10-15 metra. Þeir þurftu þá að vera sex talsins að halda risavöxnu stýri til að koma skipinu heilu á húfi til hafnar.

Skipið verður opið almenningi frá tíu á morgnanna næstu tvo daga. Á meðan það liggur við höfn á Íslandi má sjá íslenska fánann blakta við hún.


Tengdar fréttir

Bandaríska skipið Eagle leggst að höfn í Reykjavík

Bandaríska strandgæsluskipið Eagle mun leggjast að Miðbakka í Reykjarvíkurhöfn klukkan tíu á morgun, þriðjudaginn 28. júní. Skipið, sem er þrímastra seglskip, hefur hér viðkomu á siglingu sinni til að minnast þess að 75 ár eru liðin frá því það var smíðað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×