Innlent

Uppsagnir og forstjóraskipti hjá Byko

Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri Norvíkur sem er móðurfélag Byko. Hann segir aðgerðirnar sársaukafullar.
Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri Norvíkur sem er móðurfélag Byko. Hann segir aðgerðirnar sársaukafullar. Mynd/Heiða Helgadóttir
Ríflega 20 starfsmönnum verslunar Byko í Garðabæ hefur verið sagt upp störfum en versluninni verður lokað í september. Þá hefur Sigurður E. Ragnarsson, forstjóri Byko, látið af störfum hjá félaginu.

„Þetta eru afar sársaukafullar aðgerðir og hefur fjölskyldan sem staðið hefur að baki rekstri BYKO síðan verslunin var sett á laggirnar árið 1962 ákveðið að taka á nýjan leik alfarið við stjórnartaumunum. Þannig öxlum við sjálf þungann af bæði þessum aðgerðum og þeim breytingum sem nauðsynlegar kunna að verða á næstu mánuðum og misserum," er haft eftir Jóni Helga Guðmundssyni, stjórnarformanni og forstjóra Norvíkur sem á og rekur Byko, í tilkynningu.

Fram kemur í tilkynningunni að sé Byko nauðugur sá kostur að rifa seglin og laga sig að breyttum aðstæðum. „Aðstæður í íslensku efnahagsumhverfi hafa í langan tíma verið slæmar með tilheyrandi samdrætti í verslun með byggingarvörur. Þá hafa samkeppnisaðstæður á þeim markaði gjörbreyst með eignarhaldi og afskriftum banka á skuldum og síðar yfirtöku lífeyrissjóða á einu þeirra fyrirtækja sem starfrækt er á þessu sviði."

Guðmundur H. Jónsson tekur við forstjórastarfinu, en hann hefur verið forstjóri Smáragarðs og í stjórn Norvíkur og dótturfélaga. Iðunn Jónsdóttir er stjórnarformaður Byko.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×