Innlent

Biðlistar hjá BUGL

Helga Arnardóttir skrifar
Bráðamálum hjá barna- og unglingageðdeild Landspítalans fjölgaði um hundrað milli síðasta árs og 2009. Það eru meðal annars börn sem þjökuð eru af alvarlegu þunglyndi og sjálfsvígshugleiðingum. Biðlistar lengjast og bíða nú 93 börn eftir þjónustu.

Í ágúst 2007 ríkti neyðarástand á barna og unglingageðdeild Landspítalans og voru 175 börn á biðlista eftir þjónustu. Brugðist var við því með auknu fjármagni og í lok árs 2008 voru börn á biðlista orðin rúmlega 60. Í lok 2009 voru tæplega 50 börn í bið en nú virðist þróunin hafa snúist við og tæplega hundrað börn eru á biðlista eftir þjónustu. Skýringin er að bráðamálum hefur fjölgað verulega milli ára.

„Þetta eru í langflestum tilvikum börn og unglingar sem hafa lýst sjálfsvígshugsunum eða eru með sjálfsvígshegðun. Það geta líka verið önnur börn með geðrofseinkenni þannig að þau missa tengsl við raunveruleikann eða þá að þau eru með ofsafengna hegðun sem þau hafa ekki stjórn á," segir Linda Kristmundsdóttir deildarstjóri hjúkrunar á göngudeild BUGL.

Í slíkum tilfellum fá börn strax meðferð á göngudeild eða eru lögð inn. En skýringar á fjölgun bráðamála er vandfundin.

„Í fyrsta lagi getur það verið samfélagsástandið hjá okkur, fjárhagserfiðleikar hjá fjölskyldum eða einhvers konar samdráttur fyrir utan BUGL í öðrum þjónustukerfum sem við getum ekki alveg skýringu á," segir Linda.

Þetta séu börn á öllum aldri úr ólíkum aðstæðum. Meðalbiðtími eftir þjónustu hjá Bugl er nú tæplega hálft ár. Hvernig er hægt að draga úr biðlistum?

„Það er grunnþjónustan sem þarf að efla. Það er heilsugæslan, skólarnir, þjónustumiðstöðvar skólaskrifstofur og félagsþjónusta," segir Guðrún Bryndís Guðmundsdóttir yfirlæknir göngudeildar hjá BUGL.

Með efldari grunnþjónustu væri hægt að koma í veg fyrir að málum sé vísað á BUGL.

„Það hefur verið reynt að viðhalda góðri þjónustu en við erum að tala um að 20 % barna fái einhvern tímann geðræn einkenni og 5% þeirra þurfi sérfræðihjálp. Mér finnst mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að sama þó bætt sé lítillega við þjónustuna þá er það bara ekki nóg. Það þarf að skoða og virkja einhvers konar þjónustunet svo fólk viti hvar það getur leitað þjónustu," segir Guðrún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×