Raunhæfa planið Ólafur Þ. Stephensen skrifar 25. maí 2012 06:00 Þegar gjaldeyrishöft voru sett á í kjölfar hrunsins töldu flestir þau tímabundna ráðstöfun til nokkurra vikna eða mánaða, til að koma í veg fyrir að krónueignir erlendra aðila streymdu út úr landinu og orsökuðu enn meira hrun krónunnar en orðið var. Rúmlega þremur og hálfu ári síðar er ekki útlit fyrir að höftunum verði aflétt í bráð. Þvert á móti hefur sífellt þurft að herða þau og stoppa í glufur. Þótt gjaldeyrishöftin hafi varið almenning fyrir því að gengið hryndi aftur í einu vetfangi, hefur ekki tekizt að koma í veg fyrir hægfara gengissig krónunnar með tilheyrandi verðbólgu. Til lengri tíma valda höftin efnahagslífinu margvíslegum skaða. Samtök atvinnulífsins útlistuðu þann skaða í tillögu sinni að nýrri áætlun um afnám haftanna fyrir skömmu. Ísland hefur verið skorið frá hinum alþjóðlega fjármálamarkaði. Aðgangur fyrirtækja að erlendu fjármagni er takmarkaður, þeir sem koma með peninga inn í landið eftir undanþáguleiðum Seðlabankans fá forskot á aðra í samkeppni og framkvæmd haftanna þróast í „handstýrt kerfi mismununar og geðþóttaákvarðana" eins og SA orðar það. „Höftin skapa vantraust á íslensku atvinnulífi og stjórnvöldum, fæla erlenda fjárfesta frá landinu og takmarka vöxt innlendra fyrirtækja, m.a. á erlendum mörkuðum. Mesta tjón haftanna er því flestum hulið því það felst í fjárfestingum og vexti sem fara forgörðum," segir SA. Við þetta má bæta að framkvæmd haftanna stuðlar að því að búa hér til opinbert eftirlitskerfi sem brýtur gegn sjónarmiðum um friðhelgi einkalífs. Þannig gagnrýnir Persónuvernd harðlega áform í frumvarpi sem Alþingi fjallar nú um og eiga enn að auka heimildir Seðlabankans til að safna persónuupplýsingum í þágu eftirlits með gjaldeyrishöftum. Stofnunin telur vafamál að sú upplýsingasöfnunin fái „samrýmst nútímasjónarmiðum um einkalífsrétt í lýðræðisríki". Áætlun Seðlabankans, um að afnema gjaldeyrishöftin í smáum og varfærnum skrefum, án fyrirfram ákveðinna tímasetninga, virðist ekki ætla að skila því sem henni var ætlað. Áætlun SA um að ganga hraðar til verks, taka áhættuna á gengishruni en grípa í staðinn til aðgerða til varnar heimilunum, er því miður ekki trúverðug heldur. Inn í báðar áætlanir vantar viðurkenningu á því að krónan er ekki trúverðugur gjaldmiðill til framtíðar. Þær innihalda ekkert plan um upptöku annars gjaldmiðils. Það plan er þó í boði. Štefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, greindi frá því í grein í Morgunblaðinu í gær að Ísland og ESB hygðust setja á fót vinnuhóp til að „meta stöðu mála og möguleikana á því að aflétta gjaldeyrishöftunum og aðstoða við að móta sameiginlegan skilning á erfiðleikunum í því ferli." Þetta yrði liður í aðildarviðræðum Íslands og ESB. Afnám hafta og upptaka evru í samstarfi við Evrópusambandið virðist raunhæfasta áætlunin, sem nú er í boði. Ekki verður annað sagt en að það sé athyglisvert hversu margir þingmenn lýstu í gær þeirri skoðun að afþakka ætti þennan kost og stöðva aðildarviðræðurnar. Upp á hvaða áætlun bjóða þeir? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Þegar gjaldeyrishöft voru sett á í kjölfar hrunsins töldu flestir þau tímabundna ráðstöfun til nokkurra vikna eða mánaða, til að koma í veg fyrir að krónueignir erlendra aðila streymdu út úr landinu og orsökuðu enn meira hrun krónunnar en orðið var. Rúmlega þremur og hálfu ári síðar er ekki útlit fyrir að höftunum verði aflétt í bráð. Þvert á móti hefur sífellt þurft að herða þau og stoppa í glufur. Þótt gjaldeyrishöftin hafi varið almenning fyrir því að gengið hryndi aftur í einu vetfangi, hefur ekki tekizt að koma í veg fyrir hægfara gengissig krónunnar með tilheyrandi verðbólgu. Til lengri tíma valda höftin efnahagslífinu margvíslegum skaða. Samtök atvinnulífsins útlistuðu þann skaða í tillögu sinni að nýrri áætlun um afnám haftanna fyrir skömmu. Ísland hefur verið skorið frá hinum alþjóðlega fjármálamarkaði. Aðgangur fyrirtækja að erlendu fjármagni er takmarkaður, þeir sem koma með peninga inn í landið eftir undanþáguleiðum Seðlabankans fá forskot á aðra í samkeppni og framkvæmd haftanna þróast í „handstýrt kerfi mismununar og geðþóttaákvarðana" eins og SA orðar það. „Höftin skapa vantraust á íslensku atvinnulífi og stjórnvöldum, fæla erlenda fjárfesta frá landinu og takmarka vöxt innlendra fyrirtækja, m.a. á erlendum mörkuðum. Mesta tjón haftanna er því flestum hulið því það felst í fjárfestingum og vexti sem fara forgörðum," segir SA. Við þetta má bæta að framkvæmd haftanna stuðlar að því að búa hér til opinbert eftirlitskerfi sem brýtur gegn sjónarmiðum um friðhelgi einkalífs. Þannig gagnrýnir Persónuvernd harðlega áform í frumvarpi sem Alþingi fjallar nú um og eiga enn að auka heimildir Seðlabankans til að safna persónuupplýsingum í þágu eftirlits með gjaldeyrishöftum. Stofnunin telur vafamál að sú upplýsingasöfnunin fái „samrýmst nútímasjónarmiðum um einkalífsrétt í lýðræðisríki". Áætlun Seðlabankans, um að afnema gjaldeyrishöftin í smáum og varfærnum skrefum, án fyrirfram ákveðinna tímasetninga, virðist ekki ætla að skila því sem henni var ætlað. Áætlun SA um að ganga hraðar til verks, taka áhættuna á gengishruni en grípa í staðinn til aðgerða til varnar heimilunum, er því miður ekki trúverðug heldur. Inn í báðar áætlanir vantar viðurkenningu á því að krónan er ekki trúverðugur gjaldmiðill til framtíðar. Þær innihalda ekkert plan um upptöku annars gjaldmiðils. Það plan er þó í boði. Štefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, greindi frá því í grein í Morgunblaðinu í gær að Ísland og ESB hygðust setja á fót vinnuhóp til að „meta stöðu mála og möguleikana á því að aflétta gjaldeyrishöftunum og aðstoða við að móta sameiginlegan skilning á erfiðleikunum í því ferli." Þetta yrði liður í aðildarviðræðum Íslands og ESB. Afnám hafta og upptaka evru í samstarfi við Evrópusambandið virðist raunhæfasta áætlunin, sem nú er í boði. Ekki verður annað sagt en að það sé athyglisvert hversu margir þingmenn lýstu í gær þeirri skoðun að afþakka ætti þennan kost og stöðva aðildarviðræðurnar. Upp á hvaða áætlun bjóða þeir?