Veiði

Helgarviðtal: Veiddi 94 bleikjur á einum degi

Sigþór Bragason er forfallinn veiðimaður. Hér er hann með 25 punda lax sem hann veiddi í Kanada.
Sigþór Bragason er forfallinn veiðimaður. Hér er hann með 25 punda lax sem hann veiddi í Kanada.
Sigþór Bragason, fasteignasali hjá Valhöll, er forfallinn veiðimaður - hvort sem er stang- eða skotveiði. Hann byrjaði að veiða fimm ára gamall og neitaði meðal annars að fara í sveit svo hann gæti náð bleikjuveiði í fjörunni í Borgarfirði.

Hvenær byrjaðir þú að veiða?

Ég byrjaði í fjörunni á Sauðárkróki fimm ára gamall. Flutti í Borgarnes og eyddi öllum sumrum eftir sjö ára aldur í veiðar við Borgarnes og harðneitaði að fara í sveit svo ég missti ekki af fjöruveiðinni en mikil bleikjugegnd var í Borgarfirði á þessum tíma og oft flott veiði. Stundaði einnig Hólmavatn, Stóra Langadalsá og Laxá í Miklaholtshreppi fyrstu veiðiárin.

Á hvað veiðir þú?

Þegar ég byrjaði veiðar notaði ég eingöngu spún og maðk. Fluguveiðin kom svo um 15 ára aldur og hefur verið númer eitt síðan. Hef reyndar mjög gaman af maðkveiði í straumvatni enda er það mun meira krefjandi veiðiskapur.

Fyrsti flugufiskurinn?

Fyrsta flugufiskinn fékk ég 14 ára og það var bleikja í Stóru Langadalsá og lenti maður oft í ævintýranlegri bleikjuveiði það og fékk ég einu sinni 94 bleikjur á flugu á einum degi en því miður er hún nánast horfin þar eins og í öðrum ám á Vesturlandi. Fyrsta flugulaxinn veiddi ég í Setbergsá.

Lax, urriði, bleikja, sjóbirtingur?

Þetta eru allt skemmtilegir fiskar á stöng en uppáhaldið er sennilega 4-6 punda sjóbleikjur og laxar 8 -14 punda sem eru enn með alvöru baráttu vilja. Stærri laxar verða svolítið eins og að togast á við girðingastaur en eru flottari upp á vegg.

Straumvötn eða stöðuvötn?

Straumvötn heilla mig meira en stöðuvötn, meira að gera við að lesa vatnið og líflegri veiðiskapur. Þó getur vatnaveiði verið mjög skemmtileg og ég fer á hverju ári í Þingvallavatn, Elliðavatn og fleiri vötn. Uppáhalds vatn er sennilega Þingvallavatn en á erfitt með að gera upp á milli ánna þær eru svo margar skemmtilegar og uppáhalds hver á sinn hátt.

Uppáhalds veiðistaðurinn?

Uppáhalds veiðistaðirnir eru ansi margir og misjafnir en gæti nefnt Kvíslarfoss í Laxá í Kjós þar sem geta verið mikil ævintýri á vorin eins og þegar ég setti í 10 laxa á smáflugur á rúmum klukkutíma fyrir nokkrum árum þar. Einnig getur Breiðan í Langá verið mjög skemmtileg. Ég get nefnt Göngumannahyl í Laxá í Refasveit, þar getur verið ótrúlegt magn af stórlaxi. Þar sá ég þann stærsta sem ég hef séð hér á landi. En Ísland er fullt af uppáhalds veiðstöðum og hægt að nefna mjög marga marga.

Veiða/sleppa?

Engin ástæðu til að sleppa fiski nema mönnum langi sérstaklega til þess og standa með væmnislegt bros og vinka þeim bless. Vatnsdalsáin, sem var fyrsta sleppi áin, fer yfir 1.000 fiska á 7-10 ára fresti og hefur gert síðan 1980. Þetta hefur ekkert breyst eftir að sleppingarnar hófust. Held að veiðin hafi frekar minnkað í henni sem og mörgum sleppi ám þar sem allar fiskifælur eru farnar að skrá á sig laxa sem þarf ekki lengur að koma með í hús. Ég held að nú séu ansi margir laxar skráðir sem aldrei hafa komið á land. Ef þetta væri að virka væri Vatnsdalurinn væntanlega með talsvert fleiri laxa veidda á ári en er "skráð" í bækur. Það er ástandið í sjónum sem skiptir öllu máli. Held að þetta þjóni eingöngu landeigendum og veiðileyfasölum til þess að geta sýnt hærri veiðitölur og í framhaldi af því hærra verð á veiðileyfum.

Uppáhalds flugan?

Uppáhalds silungaflugurnar eru Mobuto, Peacock og Heimasætan. Við laxveiðar nota ég mest svartan Francis, Sunray og ýmiskonar hits-túbur. Annars held ég að laxinn taki það sem þú reynir mest.

Á hvað veiðir þú?

Ég er mjög íhaldssamur og hjátrúarfullur á veiðistangir og nota Orvis stöng og hjól og veiði nánast eingöngu á flotlínur , enda alltaf með þetta í höndunum þó ýmiskonar stangir hafi bæst við í gegnum tíðina.

Veiðin framundan?

Á eftir að fara í Sogið og Búðardalsá og er svolítið spenntur að prófa hana þar sem meðalveiði á stöng er með því besta sem gerist. Einnig er áætlað að fara í tvö mjög skemmtileg vötn á Norðurlandinu núna í ágúst.

Álit á þróun stangveiði á Íslandi?

Varðandi þróun veiðileyfa held ég þetta hafi alltaf verið eins. Síðan ég byrjaði að veiða hafa allir kvartað yfir því að leyfin væru of dýr og fyrirtæki og bankar væru að sprengja þetta upp. Sennilega hefur þetta ekki breyst svo mikið.

Eftir hverju ertu fyrst og fremst að sækjast þegar þú ferð að veiða?

Held að maður sækist eftir spennunni við hið óvænta í veiðinni og svo er það auðvitað góður félagsskapur sem skiptir öllu máli. Að fara út í náttúruna og veiða er ein besta aðferðin til þess að hlaða batterín og fylla á orkutankana.

Ertu hjátrúarfullur í veiðinni?

Held að flestir veiðimenn séu frekar hjátrúarfullir og noti þann búnað og klæðnað sem þeir voru með þegar þeir lentu í mokveiðinni eða fengu stóra fiskinn. Ég nota til dæmis alltaf sömu derhúfuna í veiðinni, skítuga og lítið fyrir augað.






×