Kvennalið Gróttu hefur fengið mikinn liðstyrk í N1-deild kvenna því þær Arndís María Erlingsdóttir og Þórunn Friðriksdóttir hafa báðar skrifað undir samninga við Gróttuliðið. Þær eru báðar uppaldar á Nesinu en hafa leikið með Val síðustu ár. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Gróttu.
Arndís María Erlingsdóttir er 27 ára gömul og leikur í vinstra horni. Hún hefur síðastliðin þrjú árin leikið með íslandsmeisturum Val.
Þórunn Friðriksdóttir er 24 ára gömul og leikur ýmist í hægra horni eða hægri skyttu. Þórunn freistaði gæfunnar hjá Haukum fyrir þremur árum síðan og fór síðan í Val líkt og Arndís.
Þetta eru ekki fyrstu leikmennirnir sem ganga til liðs við Gróttu á stuttum tíma því á dögunum kom Harpa Baldursdóttir til liðsins frá HK.
