Veiði

Saga stangveiða: Laxaskattur Ólafs Ragnars og félaga

Svavar Hávarðsson skrifar
Árið er 1978. Rætt er um það í neðri deild Alþingis að deildarskipting þingsins verði afnumin og þingið starfi í einni deild, og eins hvort ekki eigi að taka upp raunvexti á Íslandi. Lífið gengur sitt vanagang hjá þingi og þjóð; sumir hugsa um vexti enda geysar óðaverðbólga og aðrir um þingsköp. Eins og gengur.

Látlaust þingmál

Það vekur því ekki neina sérstaka athygli þegar hópur þingmanna leggur fram nokkuð róttæka tillögu til þingsályktunar um nýtt gjald, enda slík mál algeng. Níu þingmenn* standa að málinu; átta þingmenn Alþýðuflokks með flutningsmann tillögunnar, Árna Gunnarsson, fremstan í flokki, auk liðsinnis metnaðargjarns þingmanns frá Alþýðubandalagi; Ólafi Ragnari Grímssyni. Þeir gera það að tillögu sinni að sérstakt gjald verði lagt á veiðileyfi útlendinga, sem veiða í íslenskum ám eins og kemur fram í þingskjali: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa löggjöf um að leggja sérstakt gjald á leyfi, sem seld eru útlendingum til veiða í íslenskum laxveiðiám. Gjald þetta renni í ríkissjóð og skal fjármunum, sem þannig aflast, varið til tilrauna með fiskirækt í sjó og vötnum."

Nú þarf vart að fjölyrða um að fjölmargir íslenskir áhugamenn um stangveiði bölva nokkuð reglulega í hljóði yfir því hvernig veiðidögum er ráðstafað í bestu veiðiár þessa lands. Þá þarf ekki heldur að segja fréttir af því að verð á veiðileyfum hefur sennilega hækkað um 250 til 300 prósent frá því að þessi hópur vinstrimanna settust niður til skrifta á þessari tillögu.

Kostulegar umræður

Tillagan vakti athygli og var rædd í þaula, en eftir að henni var vísað til Allsherjarnefndar dó hún þar drottni sínum. Umræðurnar sem slíkar voru um margt merkilegar og stigu í pontu margir mætir menn. Fyrstan skal telja Steingrím Hermannsson, þáverandi dómsmálaráðherra. Hann taldi t.d. ekki líklegt að sérstakur skattur á útlendinga myndi hafa nokkur áhrif: „Ég efast mjög um að forstjóra Pepsí-Cola, sem flýgur hingað á einkaþotu sinni til að veiða í Laxá í Dölum, muni nokkuð um að greiða veiðileyfi til viðbótar."Fleira í ræðum þingmanna eins og Páls Péturssonar, Pálma Jónssonar og Stefáns Jónssonar er fróðlegt og kostulegt, en Stefán þarf ekki að kynna fyrir þeim sem hafa lesið rit hans um stangveiði.

En umræðurnar á þinginu 1978, sem reyndar teygðu sig yfir á næsta ár, tala sínu máli, og hér á eftir fylgir greinargerð þingmannana níu sem skýrir það sem þeir voru að hugsa. Við hin hugsum svo okkar.

Rök:


"Á síðari árum hefur það færst mjög í vöxt, að erlendir menn komi til Íslands til laxveiða. Þeir hafa tekið á leigu heilar veiðiár og hluta þeirra, ýmist allt veiðitímabilið eða besta veiðitímann. Íslenskir veiðimenn hafa ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að greiða jafnhátt verð fyrir árnar og útlendingarnir. Þetta hefur haft í för með sér mjög verulega hækkun á veiðileyfum, og nánast má tala um sölu á hlunnindum úr landi og brot á landslögum, sbr. leiguna á Laxá í Dölum og Hofsá í Vopnafirði, þar sem t. d. Íslendingar fá ekki að veiða í þeirri fyrrnefndu."

Spá

Nú er fyrirsjáanleg enn meiri ásókn útlendinga í íslenskar laxveiðiár, og eru dæmi þess að í ár hafi verið boðið margfalt hærra verð en íslensk veiðifélög hafa getað boðið. Á þennan hátt er beinlínis verið að bola íslenskum veiðimönnum frá íslenskum laxveiðiám. Við þessari þróun verður að stemma stigu og jafnvel væri athugandi að gera allsherjar úttekt á leigu Íslenskra laxveiði áa og gjaldeyrisskilum í tengslum við leigu til útlendinga."

Skatt á útlendinga

„Flutningsmenn þessarar tillögu eru þeirrar skoðunar, að útlendingum, sem sækjast eftir því að veiða í íslenskum laxveiðiám, verði gert að greiða sérstakt gjald, sem nýtist þjóðinni til undirbúnings átaks í fiskirækt, sem er álitleg tekjuöflunarleið fyrir þjóðina og hefur reynst mjög arðsöm, t. d. í Noregi. Hér gæti verið á ferðinni ný búgrein fyrir bændur í fjölmörgum vötnum þeirra, og einnig er mjög tímabært að rannsaka vandlega og undirbúa á vísindalegan hátt tilraunir með fiskeldi í sjó."

Og svo voru mörg þau orð!

* Flm.: Árni Gunnarsson, Bragi Sigurjónsson, Gunnlaugur Stefánsson, Vilmundur Gylfason, Karl Steinar Guðnason, Agúst Einarsson, Finnur Torfi Stefánsson, Eiður Guðnason, Ólafur Ragnar Grímsson.

svavar@frettabladid.is






×