Íslenski boltinn

FH og Breiðablik fá á annan tug milljóna vegna sölu Gylfa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
FH og Breiðablik eiga bæði rétt á samstöðubótum vegna sölu Gylfa Þórs Sigurðssonar til Tottenham. Samtals fá íslensku félögin á annan tug milljóna króna.

Samstöðubætur eru fimm prósent af heildarkaupverði leikmanns en það er talið vera um 1,6 milljarðar króna - ef marka má fréttir í enskum miðlum.

Miðað við þá tölu fengi FH tæpar sjö milljónir í sinn hlut, Breiðablik um ellefu milljónir, Reading um 40 milljónir og Hoffenheim um 22 milljónir.

Tottenham og Hoffenheim vilja ekki gefa upp kaupverðið en UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, mun fá samninginn í hendurnar og sjá til þess að félög sem eiga rétt á samstöðubóum fái sitt.

Samstöðubætur fá félög sem viðkomandi leikmaður var hjá frá 12 til 23 ára aldurs og eiga aðeins við ef um félagaskipti á milli landa er að ræða. Gylfi kom til Tottenham frá Hoffenheim í Þýskalandi og því verða samstöðubætur greiddar út vegna félagaskiptanna.

Gylfi byrjaði að æfa með FH sem barn en skipti yfir í Breiðablik þann 15. febrúar 2003, þegar hann var á fjórtánda aldursári.

Hann var svo seldur til Reading í Englandi þann 14. október 2005 en þaðan fór hann til Hoffenheim þann 31. ágúst 2010.

Samstöðubætur eru reiknaðar þannig út:

Tímabil þar sem leikmaður nær 12 ára aldri: 5%

Tímabil þar sem leikmaður nær 13 ára aldri: 5%

Tímabil þar sem leikmaður nær 14 ára aldri: 5%

Tímabil þar sem leikmaður nær 15 ára aldri: 5%

Hvert tímabil eftir það að 23 ára aldri: 10% (samtals 80%)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×