Samstarf

Nýtt himneskt ofurfæði á markað

Solla segir það vera markmiðið með Himneskt-vörunum að fleiri hafi ráð á því að kaupa hollar, lífrænar vörur.
Solla segir það vera markmiðið með Himneskt-vörunum að fleiri hafi ráð á því að kaupa hollar, lífrænar vörur. mynd/vilhelm
Eftirspurn eftir heilsufæði og lífrænu fæði hefur aukist mikið á undanförnum árum. „Það eru skemmtilegir tímar fram undan í heilsu- og hollustumálum því aðgengi að góðum heilsuvörum er alltaf að aukast," segir Solla Eiríks, sem stofnaði vörulínuna Himneskt ásamt manninum sínum, Elíasi Guðmundssyni.

Hún segir meðvitund um íslenska ofurfæðu (e. superfood) að verða meiri og farið sé að flytja út fjallagrös, þara og fleira. „Ofurfæða hefur verið skilgreind sem fæða sem inniheldur frá náttúrunnar hendi sérstaklega mikið magn af næringarefnum og/eða góðum plöntuefnum.

Oft er kunnuglegur matur eins og bláber, spergilkál, lax og valhnetur flokkaður sem ofurfæði. Sumir tala um meira framandi fæðu eins og goji-ber, maca og hráar kakóbaunir. Við hjá Himnesku höfum lagt áherslu á að víkka þessa ofurfæðislínu hjá okkur út og erum að koma með nýjar og skemmtilegar vörur á næstu vikum."

Von er til dæmis á ashwaganda sem oft er kallað indverskt ginseng. „Ashwaganda er oft sagt bæta líkamlega orku, styrkja ónæmiskerfið og verja líkamann gegn sýkingum. Íþróttamenn hafa notað það í þeytinga til að búa til náttúrulegan orkudrykk sem hressir, bætir og kætir.

Svo verðum við með stevia-blöð en þau eru náttúrulegur sætugjafi. Einnig duft úr baobab-aldintrénu en það gefur sætan sítruskeim enda mjög C-vítamínríkt en ávöxturinn er einnig óvenju kalkríkur. Sæta og súra bragðið sem baobab gefur er til dæmis gott í ostakökur, smákökur og orkustykki. Fræbelgurinn úr mesquite-tré er þurrkaður og malaður í trefjaríkt mjöl sem gefur sætt karamellubragð. Það er æðislegt í kex og smákökur og passar mjög vel með súkkulaði. Við verðum líka með hrátt kakóduft sem er gert úr möluðum kakóbaunum þegar búið er skilja kakósmjörið frá."

Fyrir á markaði í ofurfæðislínunni frá Himneskt eru meðal annars goji-ber sem eru auðug af vítamínum, steinefnum og andoxunarefnum. Hráar kakóbaunir og kakónibbur hafa notið vinsælda. Maca hefur verið á markaði en það er rótargrænmeti og er rótin þurrkuð og möluð í duft sem er mjög næringarríkt. „Maca er sögð auka einbeitingu, úthald, orku og frjósemi. Við höfum líka verið með chia-fræ sem eru auðug af fjölómettuðum fitusýrum og þá sérstaklega omega-3, sem eru lífsnauðsynlegar.

Fræin eru mjög trefjarík og það er til dæmis gott að nota þau í grauta. Lucuma er næringarríkur ávöxtur sem fæst frá Himnesku í þurrkuðu duftformi og er æðislegur í sjeik og ís til að gefa sætt og gott bragð. Við höfum líka verið með frjókorn frá býflugum (e. bee pollen) sem eru korn sem eru sögð vera best faldi fjársjóður náttúrunnar. Frjókorn eru góður próteingjafi, innihalda mikið af vítamínum og andoxunarefnum og eru sögð gefa orku og aukna frjósemi.

Hampfræin okkar eru sérlega rík af lífsnauðsynlegum fitusýrum og amínósýrum og þau eru einnig góður stein- og snefilefnagjafi. Þau eru góð í sjeika og dressingar, en líka bara ein og sér sem snarl. Svo er það chlorella-þörungurinn sem fæst oftast í grænu dufti eða litlum grænum töflum. Mikið er af próteini, járni og andoxunarefnum í þörungunum og eru þeir sagðir styrkja blóðið og bústa upp ónæmiskerfið. Við höfum líka verið með kókóspálmasykur og kakósmjör í ofurfæðislínunni hjá okkur," segir Solla.

Allar lífrænar vörur frá Himnesku eru vottaðar af vottunarstofunni Tún. „Hjá okkur eru gæðin höfð í fyrirrúmi og við höfum haft það að markmiði að allir hafi efni á að borða hollt. Mér finnst eðlilegt að það sé hægt að kaupa lífræna og holla vöru í stórmörkuðum og að hún sé samkeppnishæf. Það er stöðug þróun í vöruúrvalinu hjá okkur og við reynum alltaf að vera í fremstu röð við að kynna það sem er nýjast í heilsuheiminum," segir Solla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×