Óvissuþátturinn Ólafur Ragnar Ólafur Þ. Stephensen skrifar 6. mars 2012 06:00 Forseta Íslands má gagnrýna fyrir margt, en ekki er hægt að segja að hann geti ekki verið skemmtilegur. Það er að minnsta kosti alveg drepfyndið að Ólafur Ragnar Grímsson segist tilneyddur að sitja í nokkur ár enn vegna óvissu um stjórnskipunina og stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Það blasir nefnilega við hverjum sem er að Ólafur Ragnar er sjálfur óvissuþáttur í stjórnskipuninni og samskiptum Íslands við umheiminn. Enginn veit hverju hann kann að taka upp á - og það hefur ekki breytzt eftir síðustu yfirlýsingar. Það er ekki nýtt að forsetinn tali í gátum eða kveði ekki nógu skýrt að orði. Öllum er í fersku minni leikritið langdregna sem hófst á nýársdag og lauk ekki fyrr en á sunnudaginn. Forsetanum hefði verið í lófa lagið að eyða óvissu um áform sín með einni lítilli yfirlýsingu, þegar menn fóru að velta fyrir sér hvort hann ætlaði kannski ekkert að hætta. En Ólafur kaus að tala ekki skýrt. Nú þegar hann hefur kveðið upp úr um að hann sé í framboði, er engu að síður töluverð óvissa um hvað hann ætlast fyrir. Hann vísar til "vaxandi óvissu varðandi stjórnskipan landsins og stöðu forseta í stjórnarskrá, umróts á vettvangi þjóðmála og flokkakerfis sem og átaka um fullveldi Íslands". Þarna á forsetinn væntanlega meðal annars við að drög að frumvarpi til breyttrar stjórnarskrár eru til umfjöllunar og að Ísland hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu. En hvernig hyggst hann beita sér í þessum málum? Um það er deilt hvort ESB-aðild myndi fylgja meira eða minna fullveldi, í þeim skilningi að þjóðin hafi raunveruleg áhrif á eigin mál. En vandséð er hvernig forsetinn ætlar að passa fullveldið fyrir okkur. Í Fréttablaðinu í gær segir Ólafur að forsetaembættið sé "umfram önnur embætti í landinu helgað fullveldisstöðu Íslendinga". Þetta er enn ein prívatútlegging forsetans á stjórnskipaninni, sem á sér enga stoð í stjórnarskránni eða sögunni, enda forsetaembættið ekki stofnað fyrr en 26 árum eftir að Ísland varð fullvalda ríki. Full pólitísk samstaða ríkir um að þegar aðildarsamningur við Evrópusambandið liggur fyrir, taki þjóðin afstöðu til þess í atkvæðagreiðslu hvort hann er nógu góður eða ekki - og þá meðal annars hvort fullveldi Íslands sé nægilega borgið. Þarf forsetinn þá að leika eitthvert hlutverk? Ætlar hann að blanda sér í aðildarviðræðurnar? Í fréttum Stöðvar 2 í fyrrakvöld sagðist forsetinn reiðubúinn að taka "sjálfstæða ákvörðun jafnvel þó hún gangi gegn hagsmunum ríkisstjórnarflokka eða meirihluta Alþingis ef það er í þágu þjóðarinnar". Þýðir þetta til dæmis, í samhengi við tal Ólafs Ragnars um óvissu um stöðu forsetans, að hann væri reiðubúinn að synja stjórnarskrá sem drægi úr hans eigin völdum staðfestingar? Eins og stundum áður þarf forsetinn að skýra mál sitt og klára hálfkveðnu vísurnar, þannig að þjóðin viti hvaða pólitík er í boði af hans hálfu, nái hann kjöri. Að sama skapi hlýtur að vera vaxandi eftirspurn eftir forsetaframbjóðanda sem talar skýrt og gæti orðið forseti sem þjóðin vissi hvar hún hefur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Forseta Íslands má gagnrýna fyrir margt, en ekki er hægt að segja að hann geti ekki verið skemmtilegur. Það er að minnsta kosti alveg drepfyndið að Ólafur Ragnar Grímsson segist tilneyddur að sitja í nokkur ár enn vegna óvissu um stjórnskipunina og stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Það blasir nefnilega við hverjum sem er að Ólafur Ragnar er sjálfur óvissuþáttur í stjórnskipuninni og samskiptum Íslands við umheiminn. Enginn veit hverju hann kann að taka upp á - og það hefur ekki breytzt eftir síðustu yfirlýsingar. Það er ekki nýtt að forsetinn tali í gátum eða kveði ekki nógu skýrt að orði. Öllum er í fersku minni leikritið langdregna sem hófst á nýársdag og lauk ekki fyrr en á sunnudaginn. Forsetanum hefði verið í lófa lagið að eyða óvissu um áform sín með einni lítilli yfirlýsingu, þegar menn fóru að velta fyrir sér hvort hann ætlaði kannski ekkert að hætta. En Ólafur kaus að tala ekki skýrt. Nú þegar hann hefur kveðið upp úr um að hann sé í framboði, er engu að síður töluverð óvissa um hvað hann ætlast fyrir. Hann vísar til "vaxandi óvissu varðandi stjórnskipan landsins og stöðu forseta í stjórnarskrá, umróts á vettvangi þjóðmála og flokkakerfis sem og átaka um fullveldi Íslands". Þarna á forsetinn væntanlega meðal annars við að drög að frumvarpi til breyttrar stjórnarskrár eru til umfjöllunar og að Ísland hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu. En hvernig hyggst hann beita sér í þessum málum? Um það er deilt hvort ESB-aðild myndi fylgja meira eða minna fullveldi, í þeim skilningi að þjóðin hafi raunveruleg áhrif á eigin mál. En vandséð er hvernig forsetinn ætlar að passa fullveldið fyrir okkur. Í Fréttablaðinu í gær segir Ólafur að forsetaembættið sé "umfram önnur embætti í landinu helgað fullveldisstöðu Íslendinga". Þetta er enn ein prívatútlegging forsetans á stjórnskipaninni, sem á sér enga stoð í stjórnarskránni eða sögunni, enda forsetaembættið ekki stofnað fyrr en 26 árum eftir að Ísland varð fullvalda ríki. Full pólitísk samstaða ríkir um að þegar aðildarsamningur við Evrópusambandið liggur fyrir, taki þjóðin afstöðu til þess í atkvæðagreiðslu hvort hann er nógu góður eða ekki - og þá meðal annars hvort fullveldi Íslands sé nægilega borgið. Þarf forsetinn þá að leika eitthvert hlutverk? Ætlar hann að blanda sér í aðildarviðræðurnar? Í fréttum Stöðvar 2 í fyrrakvöld sagðist forsetinn reiðubúinn að taka "sjálfstæða ákvörðun jafnvel þó hún gangi gegn hagsmunum ríkisstjórnarflokka eða meirihluta Alþingis ef það er í þágu þjóðarinnar". Þýðir þetta til dæmis, í samhengi við tal Ólafs Ragnars um óvissu um stöðu forsetans, að hann væri reiðubúinn að synja stjórnarskrá sem drægi úr hans eigin völdum staðfestingar? Eins og stundum áður þarf forsetinn að skýra mál sitt og klára hálfkveðnu vísurnar, þannig að þjóðin viti hvaða pólitík er í boði af hans hálfu, nái hann kjöri. Að sama skapi hlýtur að vera vaxandi eftirspurn eftir forsetaframbjóðanda sem talar skýrt og gæti orðið forseti sem þjóðin vissi hvar hún hefur.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun