Körfubolti

Pavel með þrefalda tvennu í öruggum sigri Sundsvall

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij.
Pavel Ermolinskij. Mynd/Vilhelm
Sundsvall Dragons átti ekki í miklum vandræðum með Jämtland Basket í Íslendingaslagnum í sænska körfuboltanum í kvöld. Sundsvall vann leikinn með 29 stigum, 107-78, eftir að hafa verið frumkvæðið allan leikinn. Sundsvall var þarna að vinna sinn sjötta heimaleik í röð en Drekarnir eru búnir að vinna 10 af 11 leikjum sínum í Sundsvall í vetur.

Sundsvall vann fyrsta leikhlutann 19-13 og var með fimmtán stiga forskot í hálfleik, 48-33. Munurinn var síðan orðinn 22 stig í hálfleik, 76-54, og sigurinn því nánast í höfn hjá Sundsvall fyrir fjórða leikhlutann.

Pavel Ermolinskij var með þrefalda tvennu í leiknum og er þetta í fyrsta sinn sem hann nær því í sænsku deildinni. Pavel var með 13 stig, 11 fráköst og 11 stoðsendingar í kvöld. Jakob Örn Sigurðarson var stigahæstur í liði Sundsvall með 19 stig og 5 stoðsendingar og Hlynur Bæringsson var síðan með 16 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar.

Íslensku leikmennirnir í liði Sundsvall voru því saman með 48 stig, 20 fráköst og 20 stoðsendingar í leiknum í kvöld en með þessum sigri komst liðið upp að hlið Borås í 2. sæti deildarinnar.

Brynjar Þór Björnsson skoraði 8 stig fyrir Jämtland en hann var einnig með 5 stoðsendingar og 5 villur. Þetta var í þriðja sinn á tímabilinu sem Sundsvall vinnur Jämtland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×