Aron Pálmarsson hefur verið að glíma við meiðsli sem hafa plagað hann síðustu daga á Evrópumeistaramótinu í handbolta. Nálastungumeðferð hefur hins vegar reynst honum vel.
Aron æfði ekkert með landsliðinu í gær og sagði að staðan á sér væri ekkert sérstök. „En ég verð bara duglegur að fara í nudd og nálastungu og þá verð ég góður fyrir leikinn," sagði Aron en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.
„Nálastunguaðferðin virkar mjög vel. Ég fór til Ella (Elísar Þórs Rafnssonar, sjúkraþjálfara) um morguninn fyrir leikinn gegn Ungverjalandi og vorum við mjög svartsýnir. Var nánast búið að afskrifa mig. Svo eftir hádegismat fer ég í nudd í klukkutíma og enn mjög slæmur. Þá var ákveðið að prófa nálarnar og ég náði að skila einhverju af mér í leiknum."
„Við höldum því í þá von um að nálarnar virki. Ef þetta virkar þá verður að halda áfram," bætti hann við en nokkuð hefur verið um meiðsli í íslenska landsliðshópnum.
Aron tjáir sig um stöðuna á meiðslamálunum og sterkt lið Spánverja sem Ísland mætir klukkan 15.10 í dag.
Svíþjóð
Ísland