Viðskipti innlent

Ákært í Al-Thani málinu

Embætti sérstaks saksóknara hefur gefið út ákæru í hinu svokallaða Al-Thani máli, sem snýr að kaupum á 5 prósent hlut í Kaupþingi seinni part september mánaðar 2008, rúmum tveimur vikum fyrir hrun bankanna.

Heimildir fréttastofu herma að á meðal hinna ákærðu séu æðstu stjórnendur Kaupþings. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað, en ákæran hefur ekki verið birt öllum sem málið varða, samkvæmt heimildum fréttastofu.

Eignarhaldsfélag Sheikh Mohammed Bin Khalifa Al-Thani, Q Iceland Finance ehf, var sagt hafa keypt 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. þegar greint var frá viðskiptunum, en síðar kom í ljós að Kaupþing fjármagnaði kaupin að langstærstum hluta. Málið hefur verið í rannsókn alveg frá bankahruni, eða í rúm þrjú ár.

Q Iceland Finance keypti alls 37,1 milljón hluta á genginu 690 kr. á hlut, samkvæmt tilkynningu um viðskiptin þegar þau áttu sér stað.

Frekari upplýsingar um málið munu birtast á Vísi eftir því sem þær berast.


Tengdar fréttir

Hreiðar Már, Sigurður, Magnús og Ólafur ákærðir

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings banka, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg og Ólafur Ólafsson, sem var annar stærsti hluthafi bankans í gegnum fyrirtæki sín, eru hinir ákærðu í Al-Thani málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×