Handbolti

Alexander ekki með íslenska landsliðinu í forkeppni Ólympíuleikanna

Guðjón Guðmundsson skrifar
Alexander Petersson.
Alexander Petersson. Mynd/Vilhelm
Alexander Petersson, leikmaður þýska liðsins Füchse Berlin, gefur ekki kost á sér í íslenska landsliðið í handbolta sem tekur þátt í undankeppni Ólympíuleikana um páskana. Fjarvera Alexanders veikir íslenska landsliðið sem þarf að ná tveimur efstu sætunum í riðlinum í keppni við Króatíu, Japan og Síle.

Alexander hefur verið frá vegna meiðsla á öxl en hann hefur verið að koma til baka eftir að hafa verið æfingum og keppni í sex vikur. Það vekur athygli að Alexander skoraði fjögur mörk í gær þegar Füchse Berlin vann HSV Hamburg og tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Alexander hefur staðið vaktina í vörn þýska liðsins í síðustu leikjum en gat beitt sér sóknarlega í leiknum í gær. Þrátt fyrir þessi batamerki verður hann fjarri góðu gamni þegar íslenska landsliðið tekur þátt í undankeppni Ólympíuleikanna í Króatíu um páskana. Fjarvera hans veikir íslenska liðið.

Á undangengnum árum hafa nokkrir af lykilmönnum íslenska landsliðsins átt við meiðsli að stríða og þeir hafa undantekningarlaust verið kallaðir heim í læknisskoðun. Þar má helst nefna Ólaf Stefánsson, Arnór Atlason, Loga Geirsson og Snorra Stein Guðjónsson, svo einhverjir séu nefndir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×