"Þetta er mjög alvarlegt mál. Alveg sama hvernig á það er litið," sagði Guðjón L. Sigurðsson, formaður dómaranefndar HSÍ, um ásakanir Svavars Vignissonar, þjálfara kvennaliðs ÍBV, um að annar dómari leiks Gróttu og ÍBV um helgina hafi angað af áfengi.
Guðjón er staddur út í Frankfurt í Þýskalandi og segist því ekki geta beitt sér af fullum krafti í málinu fyrr en hann kemur heim á miðvikudag.
"Ég er búinn að heyra í flestum hlutaðeigandi og við munum skoða þetta mál frá öllum hliðum. Ég vil því ekki gefa út neina yfirlýsingu að þessu sinni.
"Þetta mál er þannig vaxið að það er ekki tímabært að tjá sig of mikið sem stendur. Það þarf að skoða þetta mál ofan í kjölinn og klára það á faglegan hátt. Ég er alveg til í að beita því sem þarf ef á þarf að halda gagnvart mínum mönnum."
Þeir Bjarni Viggósson og Júlíus Sigurjónsson dæmdu téðan leik en ekki hefur verið gefið upp hvor þeirra er ásakaður um að mætt angandi af áfengislykt.
"Ég hef rætt við báða dómarana sem og eftirlitsdómarann. Ég ætla ekki að láta það upp sem stendur hvað okkur fór á milli. Ég þarf að fá smá tíma til þess að melta þetta enda er þetta áfall fyrir okkur. Líka áfall fyrir hreyfinguna," sagði Guðjón og bætti við að hann myndi væntalega senda frá sér yfirlýsingu um málið þegar hann væri búinn að fara almennilega yfir það.
