Íslenski boltinn

Pepsi-mörkin extra: Kjartan Henry kennir Hjörvari hvernig á að taka víti

Kjartan Henry Finnbogason er markahæsti leikmaður Pepsideildar karla að loknum þremur umferðum. Framherjinn úr KR skoraði þrennu í 3-2 sigri gegn ÍBV í síðustu umferð og öll mörkin skoraði hann úr vítaspyrnum. Hann er sá fyrsti sem nær slíkri þrennu í efstu deild. Hjörvar Hafliðason knattspyrnusérfræðingur Stöðvar 2 sport brá sér í Frostaskjólið og fékk Kjartan til þess að fara yfir það hvernig best er að taka vítaspyrnur.

Kjartan byrjar ávallt á því að athuga hvort sokkar og legghlífar séu eins það eigi að vera áður en hann tekur vítin. „Ég slaka bara á þegar menn eru að kvarta og kveina í dómaranum og yfirleitt er markmaðurinn eitthvað að reyna að stríða mér. Það er nú aðallega Gulli í FH (Gunnleifur Gunnleifsson) sem er að reyna að „grilla" eitthvað í manni en ég hef ekki tekið mörg víti á móti honum," segir Kjartan m.a. í innslaginu sem má skoða með því að smella á örina efst í fréttinni.

„Ég á Lúkas Kostic einnig mikið að þakka en hann kenndi mér sparktækni sem ég nota í vítununum, og ég pæli ekkert í skrefafjöldanum, ekkert Ronaldo rugl. Maður er búinn að spila fótbolta frá því ég var fjögurra ára og þetta snýst bara um tilfinningu. Ég hleyp frekar beint að boltanum í stað þessa að taka einhvern sveig," segir Kjartan en hann tekur nokkrar vítaspyrnur með Hjörvar í markinu í þessu innslagi.

Bleiku takkaskórnir koma einnig við sögu og Kjartan segir frá því afhverju hann fagnar ekki mörkum sem hann skorar úr vítaspyrnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×