Sport

Stórbæting á Íslandsmeti | Ísland í úrslit í 4x100 metra fjórsundi kvenna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íslenska sveitin í 4x100 metra fjórsundi kvenna tryggði sér í morgun sæti í úrslitum á Evrópumeistaramótinu í 50 metra laug í Ungverjalandi.

Sveit Íslands kom í mark á 4:07.33 mínútum sem var fimmti besti tíminn í undanrásunum en tólf sveitir kepptu í undanrásum. Sveitin bætti Íslandsmetið, 4:15.26 mínútur frá því á Kýpur 2009, um tæpar átta sekúndur.

Sundið í morgun var einstaklega vel heppnað hjá fleirum en sveit Íslands Því til staðfestingar hefði tími Íslands dugað í 2. sætið fyrir Evrópumótið en aðrar sveitir bættu einnig tíma sína.

Lið Íslands, í þeirri röð sem þær syntu, skipuðu: Eygló Ósk Gústafsdóttir (Ægir), Hrafnhildur Lúthersdóttir (SH), Sarah Blake Bateman (Ægir) og Eva Hannesdóttir (KR).

Úrslitasundið fer fram síðdegis.

Í tilkynningu frá Sundsambandi Íslands kemur fram að um 16. besta tímann í heiminum sé að ræða. Tólf af sextán sætum á Ólympíuleikunum í greininni eru mönnuð. Fjórir bestu tímar til viðbótar tryggja sæti á leikunum.

Boðsundssveitir hafa til 15. júní til að bæta tíma sína í keppni um sæti á leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×