Skamma stund verður hönd höggi fegin Þorsteinn Pálsson skrifar 17. nóvember 2012 10:20 Áhugaleysi er það sem lesa má úr stöðunni eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi um síðustu helgi. Það rímar við þjóðaratkvæðagreiðsluna um stjórnarskrármálið þar sem hvorugum flokknum tókst að höfða til meirihluta kjósenda. Ríkisstjórnin hefur brugðist vonum kjósenda og stjórnarandstaðan hefur ekki náð að vekja nýjar vonir. Athyglisvert er að þátttakan í prófkjöri Samfylkingarinnar er til muna lakari en hjá Sjálfstæðisflokknum þrátt fyrir skarpari hugmyndafræðileg átök sem þar áttu sér stað og lutu að framtíðar forystu hennar. Þau átök stafa af því að Samfylkingin hefur breyst býsna hratt í vinstri sósíalistaflokk. Jóhanna Sigurðardóttir hafði afl til að víkja tveimur af þremur frjálslyndum ráðherrum flokksins úr ríkisstjórn og nýtti sér það. Hitt er að óhyggilegt getur verið að beita meirihlutavaldi með þessum hætti. Prófkjörið sýndi að oft er það svo að skamma stund verður hönd höggi fegin. Margt bendir til að ósveigjanleiki Jóhönnu Sigurðardóttur hafi hjálpað frjálslyndari armi flokksins, undir forystu Árna Páls Árnasonar, að ná vopnum sínum á ný. Frambjóðendur hans urðu einnig hlutskarpari í norðaustur kjördæmi. Það gæti þýtt að Samfylkingin sveigðist aftur inn á braut nútímalegrar jafnaðarstefnu. Fari svo er ekki útilokað að ná megi betra jafnvægi í pólitíkina á nýju kjörtímabili. Hugmyndabaráttunni innan Samfylkingarinnar er þó ekki lokið og eftir á að koma í ljós hversu víðsýna afstöðu Sjálfstæðisflokkurinn tekur. Krafa um meiri breiddÍ prófkjöri Sjálfstæðisflokksins var ekki með sama hætti tekist á um hugmyndafræði. Eigi að síður má lesa ákveðin skilaboð úr niðurstöðum þess. Sérstaklega á það við átökin um annað sætið þar sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir fór með sigur af hólmi. Það er ekki rétt að eigna Evrópusinnum þann árangur. En hitt er athyglisvert að afstaða hennar í þeim efnum skemmdi ekki fyrir. Það sem máli skiptir í þessu samhengi er að Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur tekið við merki Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sem fulltrúi þeirra sem standa næst miðjunni. Eðlilegt er því að túlka það traust sem hún fékk sem ósk stuðningsmanna flokksins um breidd og víðsýni. Því má segja að í Sjálfstæðisflokknum eins og Samfylkingunni hafi þau sjónarmið verið sterkust sem kalla á breiðara pólitískt samstarf. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum með eigin árangur. Enginn formaður hefur tekið við jafn erfiðu verkefni. Örlög hans voru að axla þungann af uppgjöri kjósenda við arfleifð langrar stjórnarsetu. Pólitískar rætur vonbrigðanna virðast þó einkum liggja í tveimur atvikum. Annað er að landsfundur ákvað með hlátrasköllum að henda út í hafsauga endurreisnarskýrslunni sem Geir Haarde lét vinna. Hún var alvöru tilraun til að gera upp við fortíðina og leggja grunn að framtíðarsýn. Það hefur háð nýjum formanni að hafa ekki þá málefnaundirstöðu. Hitt er að ýmsir samherjar formannsins brugðu fyrir hann fæti þegar hann beitti sér fyrir lausn Icesave-málsins. Niðurstaða þess er enn í uppnámi. Einmitt það sýnir að sú varfærnisleið sem formaðurinn vildi var skynsamleg og ábyrg út frá íslenskum hagsmunum. Um leið bar hún vott um raunverulega sáttahæfileika. Hvaða gildi hefur pólitísk rökræða?Í Silfri Egils var á það bent að í prófkjöri Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi hafi þeir náð bestum árangri sem mest lögðu af mörkum í málefnalegri hugmyndasmíð með greinaskrifum og jafnvel bókaútgáfu. Vissulega má segja að pólitísk rökræða hafi þar verið virt að verðleikum. Í prófkjörsbaráttu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík má einnig greina átakalínur af þessu tagi þótt með öðrum hætti sé. Þetta er einkum áberandi í einvíginu um fyrsta sætið. Illugi Gunnarsson, sem er í fyrsta sæti í Reykjavík norður, hefur gert meir en aðrir þingmenn flokksins í því að brjóta mál til mergjar á hugmyndafræðilegum grundvelli í greinum og fyrirlestrum, hvort heldur er á sviði menntunar eða efnahagsstjórnunar. Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrum borgarstjóri, er algjör andstæða. Hún stendur fyrir einföld skilaboð fremur en djúpar rökræður. Eigi að síður var það mat manna í Silfri Egils að hún stæði best að vígi. Hún á til að mynda enga aðra erfiða fortíð í pólitík en að hafa skilið skuldavanda Orkuveitunnar eftir til úrlausnar fyrir Besta flokkinn. Stefna Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar er að sönnu ólík. En fróðlegt verður að sjá hvort flokkarnir lúta einnig að þessu leyti mismunandi lögmálum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun
Áhugaleysi er það sem lesa má úr stöðunni eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi um síðustu helgi. Það rímar við þjóðaratkvæðagreiðsluna um stjórnarskrármálið þar sem hvorugum flokknum tókst að höfða til meirihluta kjósenda. Ríkisstjórnin hefur brugðist vonum kjósenda og stjórnarandstaðan hefur ekki náð að vekja nýjar vonir. Athyglisvert er að þátttakan í prófkjöri Samfylkingarinnar er til muna lakari en hjá Sjálfstæðisflokknum þrátt fyrir skarpari hugmyndafræðileg átök sem þar áttu sér stað og lutu að framtíðar forystu hennar. Þau átök stafa af því að Samfylkingin hefur breyst býsna hratt í vinstri sósíalistaflokk. Jóhanna Sigurðardóttir hafði afl til að víkja tveimur af þremur frjálslyndum ráðherrum flokksins úr ríkisstjórn og nýtti sér það. Hitt er að óhyggilegt getur verið að beita meirihlutavaldi með þessum hætti. Prófkjörið sýndi að oft er það svo að skamma stund verður hönd höggi fegin. Margt bendir til að ósveigjanleiki Jóhönnu Sigurðardóttur hafi hjálpað frjálslyndari armi flokksins, undir forystu Árna Páls Árnasonar, að ná vopnum sínum á ný. Frambjóðendur hans urðu einnig hlutskarpari í norðaustur kjördæmi. Það gæti þýtt að Samfylkingin sveigðist aftur inn á braut nútímalegrar jafnaðarstefnu. Fari svo er ekki útilokað að ná megi betra jafnvægi í pólitíkina á nýju kjörtímabili. Hugmyndabaráttunni innan Samfylkingarinnar er þó ekki lokið og eftir á að koma í ljós hversu víðsýna afstöðu Sjálfstæðisflokkurinn tekur. Krafa um meiri breiddÍ prófkjöri Sjálfstæðisflokksins var ekki með sama hætti tekist á um hugmyndafræði. Eigi að síður má lesa ákveðin skilaboð úr niðurstöðum þess. Sérstaklega á það við átökin um annað sætið þar sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir fór með sigur af hólmi. Það er ekki rétt að eigna Evrópusinnum þann árangur. En hitt er athyglisvert að afstaða hennar í þeim efnum skemmdi ekki fyrir. Það sem máli skiptir í þessu samhengi er að Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur tekið við merki Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sem fulltrúi þeirra sem standa næst miðjunni. Eðlilegt er því að túlka það traust sem hún fékk sem ósk stuðningsmanna flokksins um breidd og víðsýni. Því má segja að í Sjálfstæðisflokknum eins og Samfylkingunni hafi þau sjónarmið verið sterkust sem kalla á breiðara pólitískt samstarf. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum með eigin árangur. Enginn formaður hefur tekið við jafn erfiðu verkefni. Örlög hans voru að axla þungann af uppgjöri kjósenda við arfleifð langrar stjórnarsetu. Pólitískar rætur vonbrigðanna virðast þó einkum liggja í tveimur atvikum. Annað er að landsfundur ákvað með hlátrasköllum að henda út í hafsauga endurreisnarskýrslunni sem Geir Haarde lét vinna. Hún var alvöru tilraun til að gera upp við fortíðina og leggja grunn að framtíðarsýn. Það hefur háð nýjum formanni að hafa ekki þá málefnaundirstöðu. Hitt er að ýmsir samherjar formannsins brugðu fyrir hann fæti þegar hann beitti sér fyrir lausn Icesave-málsins. Niðurstaða þess er enn í uppnámi. Einmitt það sýnir að sú varfærnisleið sem formaðurinn vildi var skynsamleg og ábyrg út frá íslenskum hagsmunum. Um leið bar hún vott um raunverulega sáttahæfileika. Hvaða gildi hefur pólitísk rökræða?Í Silfri Egils var á það bent að í prófkjöri Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi hafi þeir náð bestum árangri sem mest lögðu af mörkum í málefnalegri hugmyndasmíð með greinaskrifum og jafnvel bókaútgáfu. Vissulega má segja að pólitísk rökræða hafi þar verið virt að verðleikum. Í prófkjörsbaráttu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík má einnig greina átakalínur af þessu tagi þótt með öðrum hætti sé. Þetta er einkum áberandi í einvíginu um fyrsta sætið. Illugi Gunnarsson, sem er í fyrsta sæti í Reykjavík norður, hefur gert meir en aðrir þingmenn flokksins í því að brjóta mál til mergjar á hugmyndafræðilegum grundvelli í greinum og fyrirlestrum, hvort heldur er á sviði menntunar eða efnahagsstjórnunar. Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrum borgarstjóri, er algjör andstæða. Hún stendur fyrir einföld skilaboð fremur en djúpar rökræður. Eigi að síður var það mat manna í Silfri Egils að hún stæði best að vígi. Hún á til að mynda enga aðra erfiða fortíð í pólitík en að hafa skilið skuldavanda Orkuveitunnar eftir til úrlausnar fyrir Besta flokkinn. Stefna Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar er að sönnu ólík. En fróðlegt verður að sjá hvort flokkarnir lúta einnig að þessu leyti mismunandi lögmálum.