Sport

Dæmdur úr leik fyrir að slasa dómara

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tenniskappinn David Nalbandian vill örugglega gleyma deginum í dag sem fyrst. Setti yfir í úrslitaleiknum á Queens-mótinu í Wimbledon í Englandi var honum vikið úr keppni fyrir að slasa línudómara.

Argentínumaðurinn missti stjórn á skapi sínu þegar hann tapaði uppgjafarlotu sinni í öðru setti og lenti 4-3 undir í lotum. Nalbandian sparkaði í auglýsingaskilti umhverfis endalínudómara af svo miklum krafti að dómarinn slasaðist. Atvikið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Yfirdómari mótsins, Tom Barnes, vék Nalbandian umsvifalaust úr keppni fyrir óíþróttamannslega framkomu.

„Þegar ég sá hvers eðlis meiðslin voru þurfti ekki að taka neina ákvörðun. Ég hafði engan annan möguleika," sagði Barnes. Strax byrjaði að blæða úr fótlegg endalínudómara en óhætt er að segja að atvikið sé með þeim ótrúlegri sem upp hafa komið í tennisheiminum.

Þar sem Nalbandian var vikið úr mótinu varð hann af rúmum sjö milljónum króna sem voru í verðlaun fyrir annað sæti mótsins. Þá er mögulegt að hann verði sektaður um tvær milljónir króna fyrir hegðun sína.

„Ég hugsa að svona atvik muni ekki gerast næstu eitt hundrað árin í tennisheiminum," sagði Króatinn Marin Cilic sem fagnaði allsérstökum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×