Veiði

Elliðaárnar: Maríulaxinn tók eftir 48 sekúndur!

Glæsileg veiði hjá Theodóru í morgun.
Glæsileg veiði hjá Theodóru í morgun. Mynd/GVA
Fyrstu laxarnir eru komnir á land í Elliðaánum. Það var Reykvíkingur ársins, Theodóra Rafnsdóttir, sem renndi í Fossinn í morgun undir styrkri leiðsögn Ásgeirs Heiðars, leiðsögumanns. Það tók 48 sekúndur að setja í fyrsta laxinn, glæsilegan 5 - 6 punda hæng sem var landað stuttu síðar. Að auki hafði Theodóra landað öðrum laxi og litla stund tók að ná fjórum til viðbótar. Semsagt sex laxar á land á þrem tímum, þannig að veiðin byrjar vel þetta sumarið.

Í viðtali við visir.is segir Theodóra að hana hafi dauðkviðið fyrir að hefja veiðar í morgun enda hefur hún aldrei dregið annað en marhnúta til þessa.

Theodóra er greinilega fiskin mjög því nú er hún komin heim með tvo laxa eftir þennan fyrsta veiðitúr. „Þetta var mjög skemmtilegt," segir hún og býst helst við að snúa sér meira að laxveiðum en áður hér eftir.

Theodóra var komin út að Fossinum klukkan sjö í morgun og naut góðrar aðstoðar Ásgeirs Heiðars við að setja í maríulaxinn. Nú um tíu leytið var hún á spretti á leið í vinnuna. Hún býst ekki við að hafa orku til að grilla fenginn strax í kvöld eftir þennan ævintýralega dag. Það verður vegleg grillveisla einhverntíma næstu daga í staðinn, sagði Theodóra við blaðamann Vísis.

Theodóra var valin Reykvíkingur ársins samkvæmt ábendingum frá almenningi, en hún hefur meðal annars starfað í þágu unglinga með skerta starfsgetu og að skógrækt á Breiðholtssvæðinu.

svavar@frettabladid.is


Tengdar fréttir

Fnjóská opnaði um helgina

Þrír laxar, þar af 12 punda nýrunninn hrygna, veiddust í Brúarlagshyl í Fnjóská en hún var opnuð um helgina. Í gær veiddist svo einn lax í Kolbeinspolli en um tíu laxar voru í pollinum. Þetta kemur fram á vef Stangveiðifélags Reykjavíkur, svfr.is.

Laxá í Dölum: Sjávarfljótið lagað

Um tvær vikur eru síðan að fyrsti laxinn sást í Laxá í Dölum og hefur lax reyndar legið á veiðistaðnum Dönustaðagrjótum undanfarið.

Reykvíkingur ársins veiddi Maríulaxinn í Elliðaánum

Theodóra Rafnsdóttir, Reykvíkingur ársins, landaði fyrsta laxinum úr Elliðaánum, eftir að veiðitímabilið hófst þar klukkan sjö í morgun. Sex punda laxinn beit á nánast strax eftir að beitan lenti á vatnsfletinum.






×