Viðskipti innlent

Risavaxið hótel á að bæta afkomu Hörpunnar

Magnús Halldórsson skrifar
Gert er ráð fyrir að Marriot-hótelið sem á að rísa við hlið Hörpunnar verði fimm hæða og allt að 30 þúsund fermetrar að stærð. Framtíðaráætlanir um rekstur Hörpu byggja ekki síst á samvinnu við hótelið þegar kemur að ráðstefnum.

Nú er gert ráð fyrir að uppbygging Marriot-hótelsins hér við hlið Hörpunnar muni hefjast í upphafi næsta árs en um er að ræða um átta milljarða króna fjárfestingu. Það er alveg ljóst að rekstur hótelsins mun skipta sköpum fyrir rekstur Hörpunnar til framtíðar litið.

Áætlað rekstrartap Hörpunnar á þessu ári er um 407 milljónir króna en samkvæmt úttekt á rekstri hússins, sem KPMG vann fyrir eigendur þess ríki og borg, þarf að gera róttækar breytingar á rekstrinum svo hann geti gengið upp framtíðar litið.

Hótelið sem á að rísa við hlið Hörpunnar verður allt að 30 þúsund fermetrar að stærð en til samanburðar er Harpan 28 þúsund fermetrar. Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Hörpunnar, sagði í samtali við fréttastofu í dag að gert væri ráð fyrir að bygging Marriot-hótelsins muni hefjast á upphafsmánuðum næsta árs, en svissneska félagið World Leistu Investment hefur þegar gert bindandi tilboð upp á tæpa tvo milljarða, í byggingarétt á lóðinni. Samningar um uppbyggingu og rekstur á lóðinni eru nú á lokastigum að sögn Péturs.

Til þess að gefa áhorfendum vísbendingu um hversu stór byggingin verður þegar hún verður upprisin, má sjá hvernig ásýndin verður á þessari tölvugerðu mynd. Endanlegt útlit hótelsins er þó ekki enn komið á hreint, en að sögn Péturs verða næstu mánuðir nýttir til þess að ljúka þeirri vinnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×