Handbolti

Guðmundur: Vandræðalegt í fyrri hálfleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í London skrifar
Mynd/Valli
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, var ekki skemmt í fyrri hálfleik gegn Bretum í kvöld. Gestgjafarnir hér í London reyndust strákunum okkar erfiðari viðureignar en búist var við en þeir kláruðu þó verkefnið almennilega í seinni hálfleik.

Niðurstaðan er þó sú að Ísland vann alla leiki sína í riðlinum og það stendur upp úr eftir leikinn.

„Jú, það er mikið afrek. Ég hélt reyndar að það væri að klúðrast í kvöld," sagði Guðmundur eftir leikinn og gat ekki annað en hlegið.

„En það var nokkuð erfitt að fara í þennan leik. Við vorum búnir að vinna riðilinn, vissum hverjir yrðu andstæðingar okkar í 8-liða úrslitum og við slíkar aðstæður fer hugur manna að reika. Þeir vilja heldur ekki meiðast og svo framvegis."

„En íþrótt er þannig að ef maður fer ekki í leikina af fullum krafti, þá lítur maður út eins og við gerðum í fyrri hálfleik. Það er einfaldlega ekki hægt að slaka á."

„Bretarnir keyrðu þetta áfram af fullum krafti og gáfu allt sitt í leikinn. Þetta var orðið frekar vandræðalegt hjá okkur í fyrri hálfleik."

„En svo töluðum við vel saman í hálfleiknum og fórum vel yfir það sem við myndum gera í þeim síðari. Það var ekkert að honum og náði ég að láta marga spila sem er mikilvægt upp á framhaldið að gera. Menn þurfa að vera ferskir þegar kemur að leiknum á miðvikudag."

Guðmundur tók alla leikmenn inn í búningsklefa í hálfleiknum og viðurkennir að hálfleiksræða hans hafi verið nokkuð kröftug. „Já, hún var það. Ég var hundóánægður og strákarnir ræða. Það þurfti aðeins að vekja menn til lífsins."

Hann hefur þó engar áhyggjur af því hversu strákunum gekk illa í fyrri hálfleiknum. „Allir leikirnir okkar í riðlinum voru búnir að vera erfiðir en við vorum enn taplausir. Þetta voru allt hörkuleikir, allir sem einn, og þá er ekkert einfalt að mæta Bretum í síðasta leik."

„Það er erfitt að fara inn í lokaleik gegn Bretum eftir það sem var á undan gengið en okkur tókst að klára leikinn í seinni hálfleik. Ég hef því engar áhyggjur því við höfum verið að spila vel og bæta okkur heilmikið á milli leikja. Við eigum samt helling inni og verkefnið verður skemmtilegt á miðvikudaginn."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×