Skotinn Andy Murray tryggði sér í dag sæti í átta manna úrslitum í einliðaleik karla í tenniskeppnia Ólympíuleikanna.
Murray tapaði fyrsta settinu gegn Marcos Baghdatis frá Kýpur 4-6. Skotinn, sem lék til úrslita á Wimbledon-mótinu á dögunum en beið lægri hlut gegn Roger Federer, vann næsta örugglega 6-1.
Baghdatis er líkt og Murray góður grasspilari en sá skoski hafði betur í oddasettinu 6-4.
Murray, sem raðað var númer þrjú í mótið, mætir Spánverjanum Nicolás Almagro í átta manna úrslitum.
Serbinn Novak Djokovic lenti einnig í nokkru basli í sínum leik gegn Ástralanum Lleyton Hewitt. Ástralinn vann fyrsta settið 6-4 áður en Serbinn snéri leiknum sér í vil.
Djokovic, sem féll óvænt úr leik gegn Roger Federer, í undanúrslitum á Wimbledon-mótinu á dögunum vann annað settið 7-5 og það síðasta 6-1.
Federer vann öruggan sigur á Denis Istomin frá Úsbekistan 7-5 og 6-3.
