Lífið

Aronofsky hélt ekki vatni yfir hæfileikum Íslendinga

BBI skrifar
Mynd/BuzzFoto
Ben Stiller var gestur Kastljóss sjónvarpsins í kvöld þar sem hann fjallaði um mynd sína The secret life of Walter Mitty og dvöl sína á Íslandi. Stiller er hrifinn af landinu og segir það hafa upp á margt að bjóða. Til að mynda verði Ísland ekki bara Ísland í mynd Stillers heldur Grænland og Himalaya fjöllin að auki.

Mynd Stillers er byggð á gamalli söngvamynd sem tekin var upp í myndveri. Útgáfa Stillers verður hins vegar ekki söngleikur, enda kann leikarinn að eigin sögn hvorki að syngja né dansa.

Í innslagi Kastljóssins var einnig talað við Leif B. Dagfinnsson hjá True North sem sagði frá því að um 200 Íslendingar hafi að undanförnu komið að gerð myndarinnar. Auk þeirra komu um 80-90 útlendingar hingað vegna myndarinnar.

Leikstjórinn Darren Aronofsky.Mynd/WireImage
Leifur segir að erlendir leikstjórar hafi verið ánægðir með íslensku liðsmenn sína og séu almennt undrandi yfir hversu hæfileikaríku fólki Ísland býr yfir. „Darren Aronofsky hélt ekki vatni yfir hvað við eigum talenterað fólk," sagði hann, en Aronofsky var hér í sumar við tökur á myndinni Noah.

Leifur býst við að erlendir leikstjórar muni leita til Íslands við gerð kvikmynda sinna í auknum mæli í framtíðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×