Veiði

Helgarviðtal: Tíu laxa holl í Bakkaá og Gríshólsá

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Glaðbeittir félagar í veiðifélaginu Agninu með góðan afla úr Dúnká
Glaðbeittir félagar í veiðifélaginu Agninu með góðan afla úr Dúnká
Andri Marteinsson og félagar fengu tíu laxa úr hinni lítt þekktu Bakkaá og Gríshólsá á Snæfellsnesi í sumar. Andri, sem er verkefnastjóri hjá Íslandsstofu og góðkunnur knattspyrnumaður, er í helgarviðtali Veiðivísis.



1. Hvenær byrjaðir þú að veiða á stöng og hvað varð þess valdandi að þú byrjaðir að veiða?



Ég hef verið fimm ára þegar ég byrja stangveiði þar sem ég elst upp við að fara í 1-2 veiðitúra á hverju ári með fjölskyldunni í Vatnsdalsánna og Fremri Laxá á Ásum í Húnavatnssýslunni. Pabbi sá um að maður fékk mjög snemma áhugann enda bæði duglegur og þolinmóður við að aðstoða og efla áhuga fjölskyldumeðlima á stangveiðinni.



2. Hvað var fyrsta veiðivatnið sem þú stundaðir?



Ég man fyrst eftir mér við veiðar í Þingvallavatni en annars hef ég lítið stundað vatnaveiði þar sem rennandi vatn í ám heillar meira.



3. Á hvað veiddir þú og á hvað veiðir þú?



Ég byrjaði að veiða á maðkinn en fluguveiði koma fljótlega til sögunnar og í dag skipti ég þessu tiltölulega jafnt á milli.



4. Eftirminnilegasti fiskurinn?



Þegar ég var einungis sex ára hélt ég að ég hafði fengið minn fyrsta lax þegar ég landaði 6 punda fiski í Hólakvörninni í Vatnsdalsá en eftir miklar bollalengingar var niðurstaðan sú að þetta væri ekki lax heldur urriði og man ég það glöggt að það þótti mér ekki alveg eins spennandi og vonbrigðin eftir því.



5. Straumvatn eða stöðuvötn?



Mér finnst miklu skemmtilegra að veiða í straumvatni, engin spurning.



6. Uppáhalds veiðistaðirnir?



Uppáhalds veiðistaðir mínir eru breiður, hyljir og strengir í ám sem eru ekki of straumharðar og vatnsmiklar. Það eru því ansi margir veiðistaðir sem koma til greina en Vatnsdalsáin, Fremri Laxá á Ásum og Langáin eru dæmi um ár sem geyma mikið af slíkum stöðum.



7. Veiða/sleppa. Skoðun þín?



Ég var ekkert sérstaklega hlynntur sleppingum en í seinni tíð þegar maður hefur í auknum mæli þurft að stunda slíkt hefur það lærst að það getur verið fallegur hluti af því að stunda stangveiðar.



8. Uppáhalds flugurnar?



Akkúrat núna eru eftirfarandi flugur mest notaðar; Sunray shadow, Blue charm, peter Ross, Black Ghost og Friggi sem hefur komið sterkur inn í sumar.



9. Áttu þér fasta punkta í veiðinni, vorveiði, haustveiði, sérstakar ár eða vötn?



Já föstu punktarnir eru fjölskyldutúrinn í Fremri Laxá á Ásum og túrinn með veiðfélaginu Agninu sem lengi vel var í Dunká sem SVFR tók á leigu í fyrra. Annað er yfirleitt ákveðið með stuttum fyrirvara.



10. Hvar hefur þú veitt í sumar?



Í sumar fór ég í Fremri laxánna, Gljúfurá í Borgarfirði, Vansdalsá, Bakkaá & Gríshólsá og svo Langánna. Af þessum ám kom Bakkaá & Gríshólsá mest á óvart en þetta eru tvær litlar ár fyrir vestan sem renna saman í Bakkaánna og fengum við tíu laxa og eitthvað af urriða á tvær stangir í tvo daga sem hlýtur að teljast mjög gott.



11. Hvað finnst þér um þróun stangveiðinnar á Íslandi; verð á veiðileyfum, menning á veiðistað?



Mér finnst þróunin ekki vera nógu góð þar sem menn hafa verið að borga hærra verð en gengur og gerist fyrir leigu á ám til að landa þeim í þeim tilgangi að selja erlendum veiðimönnum leyfin á uppsprengdu verði. Þó þetta sé ekki að gerast alls staðar að þá hefur þetta vissulega haft dómínó áhrif á markaðinn almennt en nú kemur hugsanlega moðir náttúra til að sporna við þessari þróun. Afleit veiði í sumar mun sporna við þessari þróun og verður mjög athyglisvert að sjá hvernig sala á veiðileyfum verður næsta ár.



12. Eftir hverju ertu fyrst og fremst að sækjast þegar þú ferð að veiða? Bráðin/náttúran/annað?



Að fá útrás fyrir veiðieðlið við góða á er frábært og er náttúran stór hluti af þeirri upplifun. Það er samt skemmtilegra í veiði þegar félagsskapurinn er góður þar sem veiðitúrarnir standa yfirleitt lengur en í einn dag og því nægur tími til að njóta sín og þá ekki bara við veiðar.






×