Handbolti

Snorri Steinn búinn að skrifa undir samning við GOG til ársins 2015

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson.
Snorri Steinn Guðjónsson. Mynd/DIENER/Leena Manhart
Danska félagið GOG Håndbold sendi frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem kom fram að íslenski landsliðsmaðurinn Snorri Steinn Guðjónsson hafi skrifað undir þriggja ára samning við félagið eða til sumarsins 2015.

GOG Håndbold spilar eins og er í dönsku b-deildinni en Snorri Steinn lék með félaginu á árunum 2007 til 2009 þegar liðið var í dönsku úrvalsdeildinni. GOG rétt missti af sæti í dönsku úrvalsdeildinni síðasta vor.

"Þetta er frábær dagur fyrir GOG. Við ætlum okkur að komast aftur í úrvalsdeildina og höfum tekið mikilvægt skref í rétta átt með því að fá Snorra. Við fáum þarna frábæran liðsfélaga og það er stórkostlegt fyrir okkar félag að geta fengið til okkar heimsklassa leikmann sem hefur svona mikla reynslu af hæsta stigi. Það er líka mikill plús að Snorri þekkir vel til hjá okkur frá því að hann lék með liðinu fyrir nokkrum árum," sagði Kasper Jørgensen, íþróttastjóri GOG.

Snorri Steinn hefur spilað síðustu árin með AG Kaupmannahöfn og þar á undan Rhein Neckar Löwen í þýsku úrvalsdeildinni. Hann var síðasti leikmaður AG til að finna sér lið eftir að félagið varð gjaldþrota í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×