Matur

Mér finnst ég unglegri á lífrænu fæði

Svala og Dagur Elías Arnarsson.
Svala og Dagur Elías Arnarsson. Mynd/Viðar Ævarsson.
Íslenskir framleiðendur með lífræna vottun kynna lífrænar vörur sínar og bjóða fólki að skoða og smakka á Lífrænu Íslandi 2012 sem fram fer í Norræna húsinu á sunnudaginn milli klukkan 12 og 17. - Enginn aðganseyrir.

Grænmeti, brauðmeti, snyrtivörur, mjólkurvörur og jafnvel lífrænn pilsner verður kynntur þar sem sumir verða með tilboðsverð á vörum sínum. Svo verða stuttir og gagnlegir fyrirlestrar allan daginn um grænan lífsstíl og sjálfbærni.



Lífið ræddi við Svölu Georgsdóttur talsmann viðburðarins og forvitnaðist um hennar viðhorfi gagnvart lífrænum vörum.



Af hverju lífrænt? Ég hef tekið eftir því að ónæmiskerfið mitt fór að styrkjast all verulega eftir að ég færði mig meira yfir í lífrænt. Ég var einu sinni alltaf veik og eldri sonur minn þjáður af astma, ofnæmi og mígreni. Þetta hefur allt batnað til muna eftir að við breyttum mataræðinu. En svo finnst mér ég slá svo margar flugur í einu höggi með því að velja lífrænt. Þá er ég bæði að stuðla að velferð dýra og bættari umhverfisvernd, því tilbúinn áburður (kemískur) mengar jarðveginn og vötnin okkar til dæmis. Gæðin eru einfaldlega meiri og betri í lífrænt vottuðum afurðum. Erfðabreytt efni eru til dæmis útilokuð í lífrænni framleiðslu, en þau eru afar umdeild eins og kom í ljós í frönsku rannsókninni um daginn, þar sem rottur fengu krabbamein af erfðabreyttum maís.



Af hverju er lífrænt hollara? Þetta hefur verið umdeilt og margar rannsóknir sýna misjafnar niðurstöður, það fer eftir því hver er að framkvæma rannsóknina held ég. En heilbrigð skynsemi segir að alveg eins og við verðum það sem við borðum þá verður grænmetið eða kjötið það sem það borðar líka. Grænmeti sem vex í vatnsbaði er einfaldlega vatnskenndara heldur en það sem fær að vaxa í mold. Alvöru mold er líka nærringarmeiri heldur en kemísk mold sem drepur jarðveginn. Það ættu allir að huga betur að því hvað þeir eru að láta ofan í sig, hugsa að það græði allir á því. Alla vega er ódýrt að þurfa aldrei að fara til læknis.



En af hverju þarf lífræn vara að vera svona kostnaðarsöm? Vegna þess að í lífrænni rækt er ekki notast við framleiðsluhætti stóriðjunnar. Grænmetið vex til dæmis hægar í mold en í vatni. Á síðustu 50 árum hefur þróunin verið þannig að sumir bændur hafa stækkað búin sín verulega og aðrir bændur farið í þrot. Það er afleiðing stóriðjuhugsunarháttsins. Í dag eru til dæmis þrjú risastór svínabú sem sjá um 90% af allri svínarækt á Íslandi. Þau svín fá aldrei að fara út, eru geld ódeyfð og troðast í básunum sínum. Gyllturnar eru stíaðar af og geta lítið hreyft sig. Þetta framleiðsluferli leiðir vissulega af sér ódýrari afurðir fyrir neytendann en ég persónulega kýs að borga einhverjum 100 köllum meira fyrir að borða afurðir með betri meðhöndlun. Finnst það bara vera ákveðin sjálfsvirðing fólgin í því, og virðing auðvitað við dýrin og náttúruna.



Er lífrænt að aukast á Íslandi? -Já það er sífellt að aukast bæði þekking og áhuga á lífrænt vottuðum vörum á Íslandi en það vantar alfarið lífrænt vottuð egg, kjúkling og svínakjöt á Íslandi og eftirspurnin er orðin mikil. Ferðmenn sem koma hingað eru að eita að lífrænt vottuðum veitingastöðum t.d. Við erum svolítið eftir á hérna heima með þetta en við í SLN gerum okkar besta til að hjálpa íslenskum framleiðendum að sjást betur. Í Danmörku er boðið upp á lífrænt vottað fæði í 60% af eldhúsum innan opinbera geirans þar í landi.

En þú sjálf - hvernig líður þér á lífrænu fæði? Mér finnst ég vera orkumeiri og unglegri á lífrænu fæði. Ég er 33 ára.



Sjá meira um viðburðinn sem fram fer næsta sunnudag hér (Facebook).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×