Handbolti

Ólafur til Flensburg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Stefán
Ólafur Gústafsson, leikmaður FH, er á leið til þýska stórliðsins Flensburg. Þetta staðfesti Einar Andri Einarsson, þjálfari FH, við Vísi.

Ólafur á að fylla í skarð Arnórs Atlasonar sem sleit hásin í leik með Flensburg um helgina.

Flensburg var í miklum vandræðum því Arnór var fenginn til liðsins í sumar vegna meiðsla Petar Djordjic. Svo þegar að Lars Kaufmann meiddist fyrr í haust var Arnór eina rétthenta skyttan eftir í liðinu.

Það voru því góð ráð dýr þegar að Arnór meiddist um helgina en hann verður frá næsta hálfa árið eða svo vegna þessa. Forráðamenn Flensburg settu sig þá í samband við FH með það fyrir augum að fá Ólaf.

„Markaðurinn er lokaður víða í Evrópu og mér skilst að þetta hafi komið inn á borð hjá FH í gær," sagði Einar Andri við Vísi.

„Þetta er auðvitað frábært tækifæri fyrir Ólaf og það sem hann hefur stefnt að. Þetta er draumur fyrir hann og ekki hægt að standa í vegi fyrir þessu."

„Það er þó ekki búið að skrifa undir neitt enn sem komið er en ef þetta verður staðfest þá hefur Ólafur spilað sinn síðasta leik með FH í bili."

Líklegt er að Ólafur muni semja við Flensburg út leiktíðina. Ekki náðist í hann við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×