Handbolti

Dagur að skoða tvo Haukastráka

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Tjörvi í leik með Haukum.
Tjörvi í leik með Haukum.
Tjörvi Þorgeirsson og Árni Steinn Steinþórsson leikmenn Hauka í N1 deild karla í handbolta eru farnir til æfinga hjá þýska úrvalsdeildarliðinu Füchse Berlin sem Dagur Sigurðsson þjálfar. Þetta staðfesti Aron Kristjánsson þjálfari Hauka og íslenska landsliðsins við Vísi nú í kvöld.

Tjörvi er leikstjórnandi Hauka og Árni Steinn leikur bæði í hægra horni og hægri skyttu fyrir topplið N1 deildarinnar en Árni Steinn er uppalinn á Selfossi.

Þeir félagar eru farnir til Þýskalands og kom heim á Þorláksmessu en hugmyndin er að þeir fái að kynnast heimi atvinnumenskunnar þar sem þeir sjá og finna á eigin skinni hvernig atvinnumenn æfa og nálgast leikinn.

Stefán Rafn Sigurmannsson og Ólafur Gústafsson hafa sýnt á undanförnum vikum hve stutt það getur verið á milli þess að leika í N1 deildinni og í bestu deild Evrópu og því má ætla að þetta kveiki neista hjá leikmönnunum sem hafa metnað til að ná enn lengra í íþróttinni en N1 deildin býður upp á.

Ekki er búist við að þeir komi heim með samning fá Þýskalandi en ljóst er þó að ef þeir standi sig á æfingum má búast við að Dagur fylgist vel með þeim í framhaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×