Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - Akureyri 32-26

Guðmundur Marinó Ingvarsson í Mosfellsbæ skrifar
Afturelding gerði sér lítið fyrir og skellti Akureyri 32-26 á heimavelli sínum að Varmá í kvöld. Afturelding lagði grunninn að sigrinum með frábærri byrjun og vann afar sannfærandi sigur á andlausu Akureyrarliði. Afturelding var fimm mörkum yfir í hálfleik 13-8.

Afturelding hóf leikinn af miklum krafti. Liðið lék frábæra vörn og allt gekk upp í sóknarleiknum. Akureyringar virtust allt annað en tilbúnir í leikinn og heimamenn byggðu upp gott forskot.

Afturelding náði mest sjö marka forystu í fyrri hálfleik 10-3 en Akureyri skoraði sitt fjórða mark ekki fyrr en rúmar 17 mínútur voru liðnar af leiknum.

Allt annað var að sjá til varnarleiks gestanna síðustu tíu mínútur hálfleiksins. Heimamenn skoruðu aðeins tvö mörk en Akureyri náði ekki að minnka muninn í að neinu ráði því sóknarleikur liðsins var enn til vandræða og því var fimm marka munur í hálfleik 13-8.

Meira jafnvægi var á seinni hálfleiknum. Akureyri reyndi minnka muninn hvað liðið gat en komst aldrei nær í fjögur mörk, 14-10 og 24-20.

Leikurinn var hraður í seinni hálfleik og mikið skorað. Akureyri gekk betur að finna leiðina í mark heimamanna en náðu ekki að minnka muninn því Afturelding gat alltaf svarað gegn lélegri vörn norðanmanna.

Þegar 11 mínútur voru til leiksloka varð Afturelding fyrir áfalli. Jóhann Jóhannsson náði sér í rautt spjald en hann hafði leikið frábærlega í leiknum. Þá munaði sjö mörkum á liðunum 23-16 en einum fleiri í fjórar mínútur samfleytt náði Akureyri að minnka muninn á ný í fjögur mörk.

Þá steig hver leikmaðurinn af fætur öðrum upp hjá heimamönnum sem skoruðu þrjú mörk í röð og gerðu út um leikinn.

Mikið var skorað er leikurinn leystist upp á loka mínútunum og lokatölur sem fyrr segir 32-26.

Allt lið heimamanna lék vel. Jóhann fór á kostum í fyrri hálfleik, Helgi Héðinsson og Sverrir Hermannsson léku vel, ekki síst í seinni hálfleik og línumennirnir Pétur Júníusson og Þrándur Gíslason voru góðir. Ungu strákarnir Kristinn Bjarkason og Elvar Ásgeirsson stigu svo upp í lokin og sýndu hversu mikil efni þeir eru.

Hjá Akureyri var fátt um fína drætti. Bjarni Fritzson var atkvæðamikill í markaskorun en sóknarleikur liðsins einkenndist af lélegum ákvörðunum og varnarleikurinn var mjög lélegur.

Afturelding er komið af botninum, í bili að minnsta kosti með stigi meira en Valur en Valur er að leika við Haukar þegar þetta er ritað. Akureyri er sem fyrr rétt fyrir ofan miðja deild.

Reynir: Gott að fara inn í fríið með svona góðan sigur„Þetta var mjög góður leikur. Við vorum flottir í alla staði. Varnarleikurinn lagði grunninn að þessu og svo vorum við hugmyndaríkir í sókninni og þetta var glæsilegur leikur í alla staði," sagði Reynir þjálfari Aftureldingar.

„Mér fannst við ná að bregðast við þegar þeir breyta varnarleiknum hjá sér. Hvað sem þeir gerðu þá náðum við að leysa það."

Afturelding sýndi mikinn karakter eftir að Akureyri hafði náð að minnka muninn í fjögur mörk þegar enn voru átta mínútur eftir og Jóhann búinn að næla sér í rautt.

„Einhvern tímann hefði liðið brotnað við svona áfall því Jóhann var búinn að vera mjög góður. Þá kom ungur drengur og steig upp, hann Elvar Ásgeirsson. Hann var óhræddur og setti frábær mörk fyrir okkur.

„Helgi Héðinsson lék sinn besta leik í vetur. Hann stjórnaði þessu mjög vel og það var sífelld ógnun af honum. Það má eiginlega segja um alla. Það stóðu sig allir frábærlega og það er erfitt að taka einhvern einn út. Kristinn og Elvar eru kornungir strákar sem stigu upp á mjög erfiðu augnabliki.

„Við áttum skelfilegan leik á móti Haukum og höfum átt í meiðsla vandræðum og það er gott að fara í fríið svona. Mér er nokkuð sama hvernig hinir leikirnir fara, það er gott fyrir okkur að fara inn í fríið með svona góðan sigur," sagði kampakátur Reynir Þór Reynisson.

Heimir: Þetta var algjör skita„Sjálfstraustið er greinilega í molum frá síðasta leik. Þetta var eiginlega nákvæmlega eins og sá leikur. Það er gamla klisjan með andleysi þegar illa gengur,“ sagði Heimir Örn Árnason annar þjálfari Akureyrar í kvöld.

„Þetta er búið að ganga vel hjá ungu strákunum en nú komu tveir smá down leikir en þetta er ekki gott veganesti í fríið, ég skal viðurkenna það og við þurfum aldeilis að rífa okkur upp.

„Það var allt lélegt í dag. Önnur skammarleg frammistaða. Við þurfum að skoða hvað hefur farið úrskeiðis síðustu tvær vikurnar, bæði sem leikmenn og þjálfarar,“ sagð Heimir.

Almennt er búist við því að Akureyri styrki leikmannahópinn í janúar en Heimir vildi ekki segja mikið um það.

„Það er aldrei að vita. Við misstum Odd Gretarsson og það má ekkert lið við því en það hefur gengið svo sem ágætlega undanfarið fyrir utan HK leikinn en þetta var algjör skita, gjörsamlega,“ sagði Heimir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×