Sport

Anna Sonja og Ólafur Hrafn eru íshokkífólk ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anna Sonja Ágústsdóttir
Anna Sonja Ágústsdóttir Mynd/Íshokkísamband Íslands/Ásgrímur Ágústsson
Anna Sonja Ágústsdóttir og Ólafur Hrafn Björnsson hafa verið valin besta íshokkífólk ársins 2012 af stjórn Íshokkísamband Íslands en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá sambandinu.

Anna Sonja er 24 ára varnarmaður sem leikur með Skautafélagi Akureyrar en Ólafur Hrafn er tvítugur sóknarmaður sem leikur með Birninum í Reykjavík. Anna Sonja er fyrst kvenna til að vera valinn íshokkíkona ársins oftar en einu sinni.

Anna Sonja Ágústsdóttir hóf að æfa íshokkí sex ára gömul og hefur leikið allan sinn feril með Skautafélagi Akureyrar, að undanskildu einu ári þegar hún lék með Malmö Redhawks í Svíþjóð.

Anna Sonja hefur spilað með öllum landsliðum kvenna sem valin hafa verið á Íslandi frá upphafi. Hún er fyrirliði kvennaliðs Skautafélags Akureyrar sem eru núverandi Deildar- og Íslandsmeistarar.

Anna Sonja er auk þess fyrirliði Íslenska kvennalandsliðsins í íshokkí og hefur á tveimur síðastliðnum heimsmeistaramótum, sem liðið tók þátt í, verið valinn besti varnarmaður mótsins.

Ólafur Hrafn Björnsson.Mynd/Íshokkísamband Íslands/Eyþór Árnason
Ólafur Hrafn Björnsson er tvítugur sóknarmaður sem leikur með Birninum í Reykjavík. Björninn er núverandi Íslandsmeistari í íshokkí og er þetta jafnramt fyrsti Íslandsmeistaratitill liðsins.

Ólafur Hrafn hóf ungur að æfa íshokkí í Svíþjóð en hann hefur allan sinn feril leikið þar eða með liði sínu Birninum. Ólafur Hrafn hefur undanfarin ár verið með stiga- og markahæstu leikmönnum á Íslandsmótinu.

Ólafur Hrafn var fyrirliði landsliðs skipað leikmönnum 20 ára og yngri en liðið vann í janúar sl., rétt til þess að leika í II. deild á komandi tímabili. Að mótinu loknu var Ólafur valinn, af þjálfara liðsins, besti leikmaður íslenska liðsins.

Ólafur Hrafn hefur tvö síðastliðin keppnistímabil átt sæti í karlalandsliði Íslands í íshokkí en bæði árin hefur liðið toppað sinn besta árangur til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×