Veiði

Nóg að gera í bókunum hjá Lax-Á fyrir sumarið

Karl Lúðvíksson skrifar
Stefán með stórlax úr Blöndu
Stefán með stórlax úr Blöndu Mynd af www.lax-a.is
Það er mikið að gera hjá veiðileyfisölum landsins þessa dagana enda eru menn farnir að bóka sumarið og sumar ár þegar farnar eiga fáa daga lausa. Við tókum hús á Stefáni Sigurðssyni hjá Lax-Á til að heyra hvernig bókanir væru að ganga hjá þessum stærsta veiðileyfasala landsins.

Hvernig ganga bókanir fyrir sumarið?

Það er allt á fullu og mikið að gera þessa dagana í sölu veiðileyfa. Bókanirnar fóru rólegra af stað en árið á undan en svona frá því í nóvember er búið að vera frábært og erum við mjög ánægð með stöðuna hér hjá Lax-á.

Í hvaða ár liggur straumurinn?

Flestir kaupa Rangárnar enda mesta framboðið hjá okkur og kannski flestir veiddir laxar líka. Blanda og Víðidalsá eru alltaf mjög vinsælar, einnig eru flestar 2-4 stanga veiðisvæðin okkar mjög vel seld að vanda.

Verður þú var við fjölgun erlendra veiðimanna í íslenskar veiðiár?

Það hafa verið að koma um 1500-2000 útlendingar að veiða í gegnum okkur á ári og virðist það standa í stað.

Hvaða á hjá Lax-Á heldur þú að verði spútnikk áin í sumar?

Ég er mjög spenntur fyrir Skjálfandafljóti. Ný vara sem hefur ekki verið á opnum markaði áður, frábærar veiðitölur og gott verð. Einnig er mjög spennandi að sjá heimtur út t.d. Rangánum og Tungufljóti. En það skýrist þá frekar þegar líður á sumarið.

Hvernig lítur veiðisumarið út hjá þér?

Vá það er svo margt. Ég byrja væntanleg í Blöndu 5 júní, svo liggur leiðin í Skjálfandafljót í opnun 18 júní, svo er Ytri Rangá 24 júní. Þetta er það eina sem er bókað þessa stundina en ég geri ráð fyrir að fara nokkra daga í Rangárnar, og Víðidalsá. Einnig er ein fjölskylduferð í Miðdalsá í byrjun ágúst, lítil sæt laxá og silungaá fyrir vestan. Einnig mun ég skreppa eitthvað í Stóru laxá og Tungufljót í Biskupstungum. Svo þróast þetta bara. Á sennilega eftir að fara meira.






×