Handbolti

Aron Kristjáns: Malovic hefur gjörsamlega misst sjálfstraustið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nemanja Malovic.
Nemanja Malovic. Mynd/Stefán
Nemanja Malovic, hægri skytta karlaliðs Hauka í handknattleik, hefur átt afar erfitt uppdráttar í undanförnum leikjum. Hann fór á kostum í fyrsta leik tímabilsins í haust gegn HK og gekk ágætlega framan af móti en svo hefur sigið á ógæfuhliðina.

„Hann virtist vera leikmaður sem hægt væri að vinna úr. Svo fór að fjara undan honum þegar nálgaðist jólin. Eftir jól hefur hann svo gjörsamlega misst sjálfstraustið," sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, um Svartfellinginn unga.

Malovic kom lítið við sögu í leiknum gegn Fram í gær. Hann skaut þrisvar að marki án þess að skora og tapaði auk þess boltanum klaufalega. Aron segir Malovic, sem gekk til liðs við Hauka fyrir tímabilið, þó ekki vera dýrt spaug fyrir fjárhag félagsins.

„Nei, þetta er ungur leikmaður, strákur í öðrum flokki. Okkur vantaði örvhentan leikmann en höfðum ekki fjármagn í að fá alvöru atvinnumann, ef maður getur sagt svo, að utan. Fórum frekar út í að taka ungan leikmann sem gæti náð framförum hér, passað þannig inn í liðið og við hjálpað honum áfram," sagði Aron.

„Það þýðir samt ekki að leggja árar í bát. Hann verður að sýna manndóm og reyna að vinna sig út úr þessu," sagði Aron.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×