Viðskipti innlent

Tippa og skafa í símunum með Betware-hugbúnaði

Magnús Halldórsson skrifar
Stefán Hrafnkelsson, aðaleigandi, stofnandi og framkvæmdastjóri Betware.
Stefán Hrafnkelsson, aðaleigandi, stofnandi og framkvæmdastjóri Betware.
Danir geta nú tippað á íþróttaviðburði með símanum sínum hvar og hvenær sem er eða freistað gæfunnar með skafmiða í nýrri snjallsímalausn frá íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Betware. Þá hefur CIRSA Gaming Corporation á Spáni tekið í notkun leikja- og hugbúnaðarlausn frá Betware fyrir Internet og snjallsímavefi fyrirtækisins á Spáni, að því er segir í fréttatilkynningu frá Betware.

Betware er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki á sviði leikja- og hugbúnaðarlausna og með yfir 16 ára reynslu á sínu sviði. Fyrirtækið hefur fengið ISO 27001 öryggisvottun og SCS vottun frá World Lottery Association. Betware sérhæfir sig í hugbúnaðarþróun fyrir leikjaiðnaðinn og starfar einungis með fyrirtækjum sem hafa tilskilin leyfi frá yfirvöldum í viðkomandi landi. Starfsmenn fyrirtækisins eru um 100 talsins, og er fyrirtækið með starfsstöðvar í Danmörku, Spáni og Serbíu, auk höfuðstöðvar á Íslandi.

Stefán Hrafnkelsson, framkvæmdastjóri og aðaleigandi Betware, segist ánægður með þetta samstarf. „Við erum afar stolt af þessum tveimur áföngum. Bæði CIRSA og Danske Spil eru leiðandi á sínum mörkuðum og við trúum að hugbúnaðarlausnir okkar muni auka sölu þessara fyrirtækja í gegnum Internetið og snjallsíma. Við væntum þess að þessir áfangar styrki Betware til framtíðar. "

Danska ríkislottóið, Danske Spil (www.danskespil.dk), hefur nýverið tekið í notkun snjallsímalausn Betware fyrir lottó-, skafmiða- og getraunaleiki. Í henni felst að danskir spilarar geta nú keypt lottó- og skafmiða og tippað á íþróttaleiki í gegnum snjallsímann sinn. „Betware hefur átt farsællt samstarf við Danske Spil frá árinu 2001 og er þetta í fyrsta sinn sem snjallsímaeigendum gefst kostur á að taka þátt í leikjum fyrirtæksins í gegnum símann sinn. Danska lottóið þykir eitt það framsæknasta á sínu sviði í heiminum en í dag eru yfir 25% af heildarsölu fyrirtækisins í gegnum Internetið og fer sú hlutdeild vaxandi," segir í tilkynningu frá Betware.

Jafnframt hefur CIRSA Gaming Corporation tekið í notkun leikja- og hugbúnaðarlausn frá Betware fyrir Internet og snjallsímavefi fyrirtækisins á Spáni (www.cirsa.es). Betware hóf samstarf við CIRSA á seinni hluta ársins 2011 en CIRSA er leiðandi í leikjaiðnaði á Spáni og í spænskumælandi löndum. CIRSA er eitt af fyrstu leikjafyrirtækjunum til að taka í notkun leikjalausnir á Internetinu sem falla að nýjum reglum á spænskum markaði. Um er að ræða hugbúnaðarlausn frá Betware sem gerir CIRSA kleift að tengja saman leiki frá ólíkum leikjaframleiðendum. Sonia Carabante, framkvæmdastjóri eGaming hjá CIRSA, segist í fréttatilkynningu frá Betware, fullviss um að framúrskarandi samsetning leikjalausna frá þeim hugbúnaðarframleiðendum sem CIRSA hefur kosið að vinna með auki á velgengni fyrirtækisins. „Betware hefur gegnt lykilhluverki við að samhæfa allar bestu leikjalausnirnar sem við viljum bjóða viðskiptavinum okkar," segir Sonia Carabante.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×