Sama hvaðan gott kemur Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar 4. maí 2012 06:00 Skotgrafahernaðurinn í umræðunni er vinsælt umkvörtunarefni. Af hverju getur fólk ekki bara sameinast um skynsamlegar lausnir, spyrja menn, af hverju þarf sífellt að rífast um allt og ekkert? Þessi gagnrýni einskorðast ekki við ákveðna hópa heldur virðist koma úr öllum áttum. Meira að segja sjálfir stjórnmálamennirnir kvarta stundum undan þessu. Það þarf ekki að lesa mikið um stjórnmálaumræðu í nágrannalöndunum til þess að komast að því að þetta er ekki séríslenskt. Þá má veita því athygli að málflutningar stjórnar og stjórnarandstöðu á þingi hverju sinni er sumpart alltaf hinn sami. Jafnvel þótt sömu einstaklingarnir hafi skipt reglulega á milli þessara hlutverka og hneykslist því í raun á eigin fyrri hegðun. Í þessu samhengi má nefna þá umræðu sem fer fram í lok hvers þings um annars vegar tilraun framkvæmdavaldsins til að „keyra mál í gegnum þingið án umræðu" og hins vegar „óþolandi málþóf stjórnarandstöðunnar." Málið er einfaldlega að flestum er alls ekkert sama hvaðan gott kemur jafnvel þótt flestir myndu telja sig samþykka þeirri þekktu fullyrðingu. Það hafa rannsóknir í atferlissálfræði ítrekað leitt í ljós. Nefna má hin svokölluðu geislabaugsáhrif sem virka þannig að við lítum síður á aðra sem samsetta persónuleika, blöndu af jákvæðum og neikvæðum eiginleikum, og fremur á þá sem í grófum dráttum góða eða slæma. Af þeim sökum eigum við erfiðara með að samþykkja hugmynd sem góða, jafnvel þó okkur þætti það ella, ef hún er kynnt af einstaklingi sem við erum yfirleitt ósammála. Annað skylt fyrirbrigði er svokölluð staðfestingarvilla sem má lýsa sem eins konar innri já-manni. Við leitum heldur eftir upplýsingum sem staðfesta skoðanir okkar eða tilgátur en öðrum sem kynnu að draga þær í efa. Þá túlkum við tvíræðar upplýsingar fyrir fram mynduðum skoðunum í vil. Sé það því mat okkar að stjórnmálaflokkur, -maður eða einfaldlega annar einstaklingur sé almennt á villigötum, munum við túlka flest hans verk, bæði góð og slæm, á versta veg. Að þessu sögðu er það ekki óeðlilegt að fólk með ólík viðhorf greini á um hvernig leysa beri vandamál og um hvert skuli stefna. Þá eru stjórnmálamenn og aðrir sem taka þátt í umræðunni að taka þátt í leik sem snýst, þegar öllu er á botninn hvolft, um að hafa áhrif. Stundum er það að ýfa upp átök bara góð leið til þess og við það þurfum við að lifa. Það getur þó verið ágætt að staldra við, líta kalt á eigin orð og loks spyrja sig hvort tilfinningarnar hafi reynst skynseminni yfirsterkari. Kannski breytir það engu en það er þó í það minnsta stundum hægt að komast hjá því að vera í þversögn við sjálfan sig. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Magnús Þorlákur Lúðvíksson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun
Skotgrafahernaðurinn í umræðunni er vinsælt umkvörtunarefni. Af hverju getur fólk ekki bara sameinast um skynsamlegar lausnir, spyrja menn, af hverju þarf sífellt að rífast um allt og ekkert? Þessi gagnrýni einskorðast ekki við ákveðna hópa heldur virðist koma úr öllum áttum. Meira að segja sjálfir stjórnmálamennirnir kvarta stundum undan þessu. Það þarf ekki að lesa mikið um stjórnmálaumræðu í nágrannalöndunum til þess að komast að því að þetta er ekki séríslenskt. Þá má veita því athygli að málflutningar stjórnar og stjórnarandstöðu á þingi hverju sinni er sumpart alltaf hinn sami. Jafnvel þótt sömu einstaklingarnir hafi skipt reglulega á milli þessara hlutverka og hneykslist því í raun á eigin fyrri hegðun. Í þessu samhengi má nefna þá umræðu sem fer fram í lok hvers þings um annars vegar tilraun framkvæmdavaldsins til að „keyra mál í gegnum þingið án umræðu" og hins vegar „óþolandi málþóf stjórnarandstöðunnar." Málið er einfaldlega að flestum er alls ekkert sama hvaðan gott kemur jafnvel þótt flestir myndu telja sig samþykka þeirri þekktu fullyrðingu. Það hafa rannsóknir í atferlissálfræði ítrekað leitt í ljós. Nefna má hin svokölluðu geislabaugsáhrif sem virka þannig að við lítum síður á aðra sem samsetta persónuleika, blöndu af jákvæðum og neikvæðum eiginleikum, og fremur á þá sem í grófum dráttum góða eða slæma. Af þeim sökum eigum við erfiðara með að samþykkja hugmynd sem góða, jafnvel þó okkur þætti það ella, ef hún er kynnt af einstaklingi sem við erum yfirleitt ósammála. Annað skylt fyrirbrigði er svokölluð staðfestingarvilla sem má lýsa sem eins konar innri já-manni. Við leitum heldur eftir upplýsingum sem staðfesta skoðanir okkar eða tilgátur en öðrum sem kynnu að draga þær í efa. Þá túlkum við tvíræðar upplýsingar fyrir fram mynduðum skoðunum í vil. Sé það því mat okkar að stjórnmálaflokkur, -maður eða einfaldlega annar einstaklingur sé almennt á villigötum, munum við túlka flest hans verk, bæði góð og slæm, á versta veg. Að þessu sögðu er það ekki óeðlilegt að fólk með ólík viðhorf greini á um hvernig leysa beri vandamál og um hvert skuli stefna. Þá eru stjórnmálamenn og aðrir sem taka þátt í umræðunni að taka þátt í leik sem snýst, þegar öllu er á botninn hvolft, um að hafa áhrif. Stundum er það að ýfa upp átök bara góð leið til þess og við það þurfum við að lifa. Það getur þó verið ágætt að staldra við, líta kalt á eigin orð og loks spyrja sig hvort tilfinningarnar hafi reynst skynseminni yfirsterkari. Kannski breytir það engu en það er þó í það minnsta stundum hægt að komast hjá því að vera í þversögn við sjálfan sig.