Handbolti

Afturelding hafði betur í fyrstu rimmunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhann Jóhansson skoraði sjö mörk fyrir Aftureldingu í kvöld.
Jóhann Jóhansson skoraði sjö mörk fyrir Aftureldingu í kvöld. Mynd/Valli
Afturelding vann í kvöld mikilvægan sigur á Stjörnunni, 26-22, í fyrsta leik liðanna í úrslitum umspils um sæti í N1-deild karla á næstu leiktíð.

Staðan í hálfleik var 13-10, heimamönnum í Aftureldingu í vil. Næsti leikur liðanna fer fram í Garðabænum á sunnudagskvöldið en tvo sigra þarf til að sigra í rimmunni.

Afturelding hafnaði í sjöunda sæti N1-deildar karla á tímabilinu og hafði betur gegn Selfossi, sem hafnaði í fjórða sæti 1. deildarinnar, í fyrstu umferð umspilsins.

Stjörnumenn komust í úrslit umspilsins eftir að hafa unnið Víkinga í fyrstu umferðinni. Liðin urðu jöfn að stigum í 2.-3. sæti 1. deildarinnar en Víkingur var með betra markahlutfall.

Hilmar Stefánsson og Jóhann Jóhannsson skoruðu sjö mörk hvor fyrir Aftureldingu í kvöld og Davíð Svansson varði 21 skot í markinu.

Hjá Stjörnunni var Haraldur Þorvarðarson markahæstur með sex mörk. Svavar M. Ólafsson varði tíu skot í markinu og Björn Viðar Björnsson sex.

Afturelding - Stjarnan 26-22 (13-10)

Mörk Aftureldingar: Hilmar Stefánsson 7, Jóhann Jóhannsson 7, Jón Andri Helgason 5, Sverrir Hermannson 3, Pétur Júníusson 2, Davíð Svansson 1, Hrafn Ingvarsson 1.

Mörk Stjörnunnar: Haraldur Þorvarðarson 6, Víglundur Þórsson 3, Arnar Jón Agnarsson 3, Kristján S. Kristjánsson 3, Bjarni Jónasson 2, Eyþór Magnússon 2, Guðmundur Guðmundsson 2, Sverrir Eyjólfsson 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×