Belti, axlabönd og keðjur Þórður snær júlíusson skrifar 5. apríl 2012 06:00 Í nýrri skýrslu Samkeppniseftirlitsins, „Endurreisn fyrirtækja 2012 – Aflaklær eða uppvakningar", kemur fram að 71% stjórnenda 120 stærstu rekstrarfyrirtækja landsins telja að dulin yfirráð banka yfir fyrirtækjum séu vandamál í atvinnulífinu. Þar er vitnað til athugasemda sem stjórnendurnir gerðu við þetta ástand. Einn stjórnandinn sagði að „lánasamningar og veðskjöl í dag eru orðin með þeim hætti að bankarnir stjórna fyrirtækjunum í reynd. Þannig er algengt að í mjög skuldsettum félögum séu nánast allar ákvarðanir háðar samþykki bankans […] Fyrirtækin og ákvarðanataka innan þeirra er því í raun á valdi lánveitenda". Annar stjórnandi sagði að „öll lánaskilyrði bankanna bera með sér að bankinn telji nauðsynlegt að hafa vit fyrir stjórnendum og þeim ekki treyst til að taka ákvarðanir um fjárfestingar og önnur útgjöld þrátt fyrir traust veð". Viljhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tók undir þessi orð á umræðufundi um skýrsluna í Hörpunni síðastliðinn mánudag. Þar sagði hann bankana vera „ekki bara með belti og axlabönd, heldur keðjur" í þeim lánasamningum sem þeir hafa verið að gera eftir hrun. Varkárni bankanna á þó ekki að koma á óvart. Á góðæristímum voru lánasamningar beinleiðis lélegir. Margir þeirra voru gerðir eftir leiðbeiningum lántakandans, sem oft á tíðum var í eigendahópi bankans, og með hagsmuni hans í huga. Dæmi um þetta er óeðlilegur fjöldi svokallaðra kúlulána, sem aðskilja sig frá hefðbundnum lánum með því að þau eru einungis með einn gjalddaga í lok lánstíma. Þegar kom að gjalddaga lánanna var oftar en ekki ákveðið að veita framlengingu á þeim eða ný lán veitt til að greiða þau gömlu upp. Með þessum hætti þurftu stærstu lántakendurnir í raun aldrei að greiða nein lán. Í skýrslu sem franska rannsóknarfyrirtækið Cofysis vann fyrir embætti sérstaks saksóknara um Glitni í lok árs 2010 sagði að hin mikla tíðni kúlulána hjá bankanum hefði beinleiðis verið andhverf skynsamlegri bankastarfsemi. Bankarnir sáu líka um útgáfu óveðtryggðra fyrirtækjaskuldabréfa fyrir félög sem vantaði fjármögnun. Slík bréf hafa kostað lífeyrissjóði landsins, sem keyptu mikið af þeim, rúmlega 90 milljarða króna hið minnsta. Í nýlegri úttekt á starfsemi sjóðanna, sem gerð var opinber í febrúar, kom fram að skilmálar í slíkum útgáfum hafi almennt verið allt of veikir. Hlutafélög sem voru „í góðu áliti" fengu að gefa út verðlausa pappíra með heilbrigðisvottorði frá fjármálafyrirtækjunum sem höfðu umsjón með útboðunum. Svona hegðun, þar sem bankarnir voru hvorki með belti, axlabönd, keðjur né í buxum yfirleitt, spilaði stórt hlutverk í því að kröfuhafar stóru bankanna þriggja reikna með því að tapa um 6.000 milljörðum króna vegna falls þeirra og að erlendar fjármálastofnanir reikna með því að tapa rúmlega 7.500 milljörðum króna á íslenskum bönkum og fyrirtækjum. Í byrjun árs 2009 voru 68% 120 stærstu fyrirtækja landsins undir yfirráðum bankanna. Það hlutfall var komið niður í 27% um síðustu áramót, og er það vel. Bankarnir vilja væntanlega búa þannig um hnútana að þeir fái þessi fyrirtæki aldrei aftur í fangið. Fyrsta skrefið í þá átt er að forðast margt í því vinnulagi sem tíðkaðist við útlán fyrir bankahrun. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þórður Snær Júlíusson Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Í nýrri skýrslu Samkeppniseftirlitsins, „Endurreisn fyrirtækja 2012 – Aflaklær eða uppvakningar", kemur fram að 71% stjórnenda 120 stærstu rekstrarfyrirtækja landsins telja að dulin yfirráð banka yfir fyrirtækjum séu vandamál í atvinnulífinu. Þar er vitnað til athugasemda sem stjórnendurnir gerðu við þetta ástand. Einn stjórnandinn sagði að „lánasamningar og veðskjöl í dag eru orðin með þeim hætti að bankarnir stjórna fyrirtækjunum í reynd. Þannig er algengt að í mjög skuldsettum félögum séu nánast allar ákvarðanir háðar samþykki bankans […] Fyrirtækin og ákvarðanataka innan þeirra er því í raun á valdi lánveitenda". Annar stjórnandi sagði að „öll lánaskilyrði bankanna bera með sér að bankinn telji nauðsynlegt að hafa vit fyrir stjórnendum og þeim ekki treyst til að taka ákvarðanir um fjárfestingar og önnur útgjöld þrátt fyrir traust veð". Viljhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tók undir þessi orð á umræðufundi um skýrsluna í Hörpunni síðastliðinn mánudag. Þar sagði hann bankana vera „ekki bara með belti og axlabönd, heldur keðjur" í þeim lánasamningum sem þeir hafa verið að gera eftir hrun. Varkárni bankanna á þó ekki að koma á óvart. Á góðæristímum voru lánasamningar beinleiðis lélegir. Margir þeirra voru gerðir eftir leiðbeiningum lántakandans, sem oft á tíðum var í eigendahópi bankans, og með hagsmuni hans í huga. Dæmi um þetta er óeðlilegur fjöldi svokallaðra kúlulána, sem aðskilja sig frá hefðbundnum lánum með því að þau eru einungis með einn gjalddaga í lok lánstíma. Þegar kom að gjalddaga lánanna var oftar en ekki ákveðið að veita framlengingu á þeim eða ný lán veitt til að greiða þau gömlu upp. Með þessum hætti þurftu stærstu lántakendurnir í raun aldrei að greiða nein lán. Í skýrslu sem franska rannsóknarfyrirtækið Cofysis vann fyrir embætti sérstaks saksóknara um Glitni í lok árs 2010 sagði að hin mikla tíðni kúlulána hjá bankanum hefði beinleiðis verið andhverf skynsamlegri bankastarfsemi. Bankarnir sáu líka um útgáfu óveðtryggðra fyrirtækjaskuldabréfa fyrir félög sem vantaði fjármögnun. Slík bréf hafa kostað lífeyrissjóði landsins, sem keyptu mikið af þeim, rúmlega 90 milljarða króna hið minnsta. Í nýlegri úttekt á starfsemi sjóðanna, sem gerð var opinber í febrúar, kom fram að skilmálar í slíkum útgáfum hafi almennt verið allt of veikir. Hlutafélög sem voru „í góðu áliti" fengu að gefa út verðlausa pappíra með heilbrigðisvottorði frá fjármálafyrirtækjunum sem höfðu umsjón með útboðunum. Svona hegðun, þar sem bankarnir voru hvorki með belti, axlabönd, keðjur né í buxum yfirleitt, spilaði stórt hlutverk í því að kröfuhafar stóru bankanna þriggja reikna með því að tapa um 6.000 milljörðum króna vegna falls þeirra og að erlendar fjármálastofnanir reikna með því að tapa rúmlega 7.500 milljörðum króna á íslenskum bönkum og fyrirtækjum. Í byrjun árs 2009 voru 68% 120 stærstu fyrirtækja landsins undir yfirráðum bankanna. Það hlutfall var komið niður í 27% um síðustu áramót, og er það vel. Bankarnir vilja væntanlega búa þannig um hnútana að þeir fái þessi fyrirtæki aldrei aftur í fangið. Fyrsta skrefið í þá átt er að forðast margt í því vinnulagi sem tíðkaðist við útlán fyrir bankahrun.