Í hlutverki sínu sem James Bond er leikarinn Daniel Craig fær um ofurmannlegar dáðir. Í nýjustu Bond-myndinni, Skyfall, sem frumsýnd er á morgun hristir hann af sér byssukúlurnar eins og regndropa og sprengir vopnlaus upp heilu óvinasveitirnar.
Afrekin hafa þó fá verið jafnofurmannleg og að sannfæra Sam Mendes um að taka sér hvíld frá kvikmyndum þar sem saga og karaktersköpun eru þungamiðjan og leikstýra eltingaleikjum og skotbardögum í Bond.
"Craig er ástæðan fyrir því að ég gekk til liðs við teymið," segir Mendes sem hefur starfað í Hollywood til fjölda ára og leikstýrt myndum á borð við American beauty og Revolutionary road þar sem hann vann m.a. með þáverandi eiginkonu sinni, leikkonunni Kate Winslet.
"Ég var hrifinn af honum í Casino Royale auk þess sem við erum vinir."

Craig hafði hvolft í sig nokkrum drykkjum þegar hann vatt sér upp að Mendes, steig gróflega út fyrir valdsvið sitt eins og Bond einum er lagið og hóf að reyna að sannfæra Mendes um að taka að sér leikstjórn myndarinnar.

"Maður þarf alltaf að tryggja að karakterarnir eigi sér tilfinningalegan veruleika. Manni þarf að þykja vænt um þá. Það er ekki hægt að ganga út frá því að áhorfendur hafi áhuga á þeim eingöngu vegna þess að þeir heita James Bond eða eru Bond-þorparar. Það þarf að réttlæta tilvist hverrar einustu persónu, sérstaklega þeirrar sem fólk telur sig þekkja best."

"Það gerðist eitthvað í kjölfarið á The Dark Knight þegar kom að stórmyndum. Mér fannst hún stórkostleg. Hún var drungaleg en samt vinsæl. Vegna hennar er allt í einu orðið auðveldara að fá að fjalla um alvarleg og flókin málefni í dýrum hasarmyndaseríum."

"Ég átti meiri samleið með Bond sem unglingur en ég hef átt síðustu ár. Við gerð myndarinnar reyndi ég því að kalla fram þrettán ára strákinn í mér og rifja upp hvað það var sem kveikti í mér og vakti með mér spennu þegar ég var þrettán," segir Mendes sem er sannfærður um að allir finni eitthvað við sitt hæfi í Skyfall.