Í Ráðhúsi Reykjavíkur verður reist Fyrirmyndarborg en það er Arkitektafélag Íslands sem stendur fyrir þeirri uppákomu.
„Fjölskyldur og börn geta fengið úthlutað lóð í skipulagi sem verður komið fyrir á gólfi Ráðhússins, þar byggja þau hús, torg og garða," segir á heimasíðu HönnunarMars.
![](https://www.visir.is/i/5208E7DC894C730CED6C61F9217846955B47DFD9E18C46DD87CC87ECE8F41650_713x0.jpg)
Hönnunarsafn Íslands tekur að sjálfsögðu þátt í HönnunarMars og kynnir samstarfsverkefni safnsins og Erlu Sólveigar Óskarsdóttur húsgagnahönnuðar.
„Safnið fór þess á leit við Erlu að hún hannaði létt borð fyrir gesti safnsins sem nota mætti bæði úti og inni. Góa er úr áli og er eina íslenska borðið á markaði sem hentar utandyra."
![](https://www.visir.is/i/50C67B2527CB03BE2CCD77C20EA253EC301E8A969CD643E0A5E14D2D1C4DE9D7_713x0.jpg)
Matarhönnun ýmiss konar skipar sinn sess á hátíðinni. HönnunarMarsipan snýr aftur og verður hægt að festa kaup á því í Kiosk á Laugavegi 65.
Þá er á hátíðinni meðal annars fyrirlestur matarhönnuðarins Marije Vogelsang á fyrirlestrardegi í Gamla bíói.
![](https://www.visir.is/i/F32E915DE06FF154B18F53D98D247028D7D8886CE8D16BC0ECFA4573DA74626E_713x0.jpg)
Íslensk hönnun er í aðalhlutverki á HönnunarMars, en í fyrsta skipti í ár sækja erlendir gestir hátíðina heim. Finnska Popup-verslun Design Forum verður starfrækt í Netagerðinni næstu þrjá daga. Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar, segir það ánægjulega nýbreytni:
„Við viljum fá erlenda hönnuði á hátíðina."
![](https://www.visir.is/i/9E54B86E830B815A0BAD3FBA2B0DA0123F7E14295183C4AC63AEFAA146CFAAB9_713x0.jpg)
Sýning með verkum Tinnu Gunnarsdóttur verður svo opnuð í Listasafni Íslands.