Handbolti

HSÍ vill að Ísland eignist besta markvörð í heimi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmundur Hrafnkelsson getur deilt mikilli reynslu með ungum íslenskum markvörðum.
Guðmundur Hrafnkelsson getur deilt mikilli reynslu með ungum íslenskum markvörðum. Mynd/Páll Bergmann
Handknattleikssamband Íslands, HSÍ, hefur hafið átak er varðar markmannsþjálfun hérlendis. Gísli Rúnar Guðmundsson, Bergsveinn Bergsveinsson, Guðmundur Hrafnkelsson og Roland Eradze mynda fjögurra manna markmannsþjálfarateymi sem vinna munu með markvörðum yngri landsliða.

Auk þess munu fjórmenningarnir heimsækja félögin á landinu, búa til kennsluefni, standa fyrir séræfingum fyrir markverði og vera markmannsþjálfurum hjá félögunum til halds og trausts. Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari karla, og Árni Stefánsson, fræðslustjóri HSÍ, munu einnig koma að verkefninu.

Tom Jensen, markmannsþjálfari frá Danmörku, var á Íslandi um helgina til þess að miðla af reynslu Dana af markvarðarþjálfun. Farið var í stefnumótun og markmiðasetningu og er niðurstaðan sú að HSÍ vill að öll félög hafi markmannsþjálfara innan sinna raða sem sinni markvörðum í öllum flokkum.

Langtímamarkmið HSÍ er að Íslandi eignist markverði í allra fremstu röð og á endanum þann besta í heiminum.

Nánar um málið á heimasíðu HSÍ, sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×