Veiði

Veiðivötn búin að rjúfa 10.000 fiska múrinn

Svavar Hávarðsson skrifar
Dagsveiði frænda í Veiðivötnum nýlega.
Dagsveiði frænda í Veiðivötnum nýlega. Mynd/Haukur
Veiðivötn gefa vel þessa dagana og meðalþyngdin á silungnum fer hækkandi. Einn heimildarmanna Veiðivísis er nýkominn heim en hann var við veiðar við annan mann í tvo daga. Hann segir svo frá:

„Ég og frændi minn vorum að lenda eftir frábæra veiðivatnaferð, við veiddum í 2 daga og lönduðum 30 fiskum en hirtum 24, stærsti var 9,7 pund og heildarþingd 47 kíló þannig að meðalviktin var um 2 kíló :) Fengum mest í Litlasjó og Grænavatni og allt á svartar straumflugur."

Veiði í Veiðivötnum hófst 18. júní og fór rólega af stað og aðeins 3.075 fiskar komu á land í fyrstu vikunni. Munar þar mest um litla veiði í Litlasjó samanborið við undanfarin ár. Fiskarnir þar eru nú greinilega komnir á ról og veiðin að glæðast.

Á heimasíðu Veiðivatna veidivotn.is segir að í fjórðu viku komu 2.263 fiskar á land, sem er mjög gott samanborið við undanfarin ár. Heildarveiðin er komin í 10.170 fiska og meðalþyngdin tvö pund. Stærsti fiskurinn er sem fyrr 12.8 punda urriði úr Grænavatni.

Meðalþyngdin hækkar í Litlasjó en í fjórðu viku komu þar 1.069 fiskar á land og meðalþyngdin er komin í tæp þrjú pund. Jafnframt kom stærsti fiskurinn það sem af er sumri á land í vikunni. Hann vóg 10.4 pund. Heildarveiði það sem af er sumri í Litlasjó er 3.014 fiskar.

Áfram veiðist vel í mörgum öðrum vötnum svo sem í Stóra Fossvatni, Hraunvötnum, Snjóölduvatni, Eskivatni, Kvíslarvatni og Langavatni.

Þar sem veiðin í Litlasjó er góð flykkjast veiðimenn þangað, einkum á kvöldin og þar af leiðandi kemur minna á land í öðrum vötnum.

Hér má sjá veiðina í heild eftir fjórðu viku í smáatriðum, en hrósa verður umsjónarmönnum svæðisins fyrir afburðagóða upplýsingagjöf til veiðimanna.

svavar@frettabladid.is






×