Veiði

350-400 fiskar komnir á land í Tungulæk

Kristján Hjálmarsson skrifar
Þröstur Elliðason á veiðum. Hann býst við góðri veiði í Tungulæk í haust.
Þröstur Elliðason á veiðum. Hann býst við góðri veiði í Tungulæk í haust.
Veiði í Tungulæk hefur farið vel af stað og eru þegar um 300-400 fiskar komnir á land. Það vakti töluverða athygli þegar sjónvarpskokkurinn Gordon Ramsey fór þar til veiða um síðustu helgi en hann náði í nokkra væna sjóbirtinga, þar á meðal 10 og 12 punda, að því er fram kemur af vefnum freisting.is.

"Ég er búinn að fara með tvær til þrjár grúppur. Fyrir tveimur vikum fékk ein grúppan 56 fiska á þrjár stangir og helgina þar áður var aðeins minni veiði eða 30-40 fiskar á fjórar stangir," segir veiðiklóin Þröstur Elliðason. "Um síðustu helgi held ég að veiðin hafi verið komin í um 300-400 fiska. Það er mjög mikið af vænum fiski allt up 85 sentimetrar á stærð. "

Þröstur er ekki leigutaki að læknum í ár en hann hefur farið með útlendinga til veiða þar. Hann segir að í byrjun sumars hafi veiðin dreifst jafnt yfir lækinn en nú hafi fiskurinn fært sig neðar, við ósa Skaftár og þar í kring meðal annars í svokallaða frystikistu.

Að sögn Þrastar virka straumflugur best í Tungulæk, Black ghost og noblerar. "Að vísu hef ég ekki kíkt í bókina nýlega svo ég veit ekki hvað þeir hafa verið að veiða á. En þetta eru svona helstu flugurnar sem er veitt á þarna," segir Þröstur.

Ein besta sjóbirtingsá landsins


Tungulækur hefur um árabil verið ein besta sjóbirtingsá landsins. Margir fiskar hafa komið á land þó ásóknin í ána hafi ekki verið mikil.

"Ég hef veitt þarna á hverju ári í mörg ár, stundum hef ég verið með hana á leigu eða þá að ég hef fengið aðgang með hópi útlendinga," segir Þröstur.

"Það róast mikið yfir læknum yfir mitt sumarið en svo fer veiðin aftur upp á við þegar líður á. Haustið ætti að verða gott en það hefur að vísu verið vandamál þarna síðustu tvö ár hvað vatnið hefur verið mikið. Það hefur rignt mikið og það hefur torveldað svolítið veiðina," segir Þröstur sem býst þó við góðri haustveiði. "Það vantar ekki fiskinn í lækinn, það er nokkuð ljóst."






×