Lífið

Allt leyfilegt þegar menn eru komnir í spandexið

Bjarni segir þurfa pung í að þora að koma á svið í glysgallanum og fíla sig vel.
Bjarni segir þurfa pung í að þora að koma á svið í glysgallanum og fíla sig vel. Fréttablaðið/Daníel
„Við erum svo klisjukenndir að það hálfa væri nóg, en það þarf smá pung til að þora þetta,“ segir Bjarni Egill Ögmundsson, eða Bebbi Diamond eins og hann kallar sig, trommari glysrokkbandsins Diamond Thunder.

Hljómsveitin er skipuð fimm mönnum og búin að vera starfandi frá því í febrúar. „Það er erfitt að finna svona frábæra gaura sem þora að skella á sig ælæner, fara í spandex og láta eins og vitleysingar uppi á sviði, svo það er algjör snilld að við höfum náð saman,“ segir Bjarni.

Að því er hann best veit er Diamond Thunder eina glysrokkband landsins og segir hann þá æsta í að kynna nýja kynslóð fyrir þessari frábæru tónlist. „Það vilja allir koma og sjá okkur enda erum við ljónharðir og skelfilega skemmtilegir. Stemningin er líka alltaf baneitruð því við erum svo asnalegir og bjánalegir að fólki finnst það mega haga sér þannig líka,“ segir Bjarni.

Hljómsveitin hefur dundað sér við að semja eigin lög en stefnir þó ekki á neina útgáfu strax. „Ef manni liggur of mikið á verður þetta erfitt og leiðinlegt og um leið og við hættum að hafa gaman að þessu fellur þetta um sjálft sig,“ segir Bjarni og bætir við að þeir stefni ekki á neina heimsfrægð, þó heimsyfirráð séu reyndar á döfinni. „Ég held að versta hugmynd sem nokkrum hefur dottið í hug sé að ætla að græða peninga á tónlist. Þetta á bara að vera ógeðslega gaman og ef maður græðir á þessu er það bara ógeðslega gaman líka. Við erum ekkert að sækjast eftir því að komast í Séð og Heyrt með fráskilnaðarsögur þó eflaust séu flestir mjög áhugasamir um líf okkar, sérstaklega ástalíf,“ segir hann.

Hliðarsjálf fimmmenninganna, Don Joey, Atli Power, Ingo Poison, Anthony Thunder og Bebbi Diamond koma í ljós þegar í spandexið er komið og þá er allt leyfilegt en þeir skilja karakterinn þó eftir í búningnum. „Maður verður að fíla sig til að geta gert svona stórkostlega hluti. Við erum samt ekkert að fara að mæta í þeim gír í 10-11 fyrir hádegi á miðvikudegi. Þá værum við bara flokkaðir sem leiðinlegir fávitar og enginn myndi nenna að tala við okkur,“ segir Bjarni eiturhress.

tinnaros@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.