Tvöfaldur trúnaðarbrestur Ólafur Þ. Stephensen skrifar 19. desember 2012 06:00 Samtök atvinnulífsins (SA) og Alþýðusambandið (ASÍ) ræða nú saman um forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og hvort til greina komi að segja þeim upp í janúar, eins og heimilt er að gera. Fyrir liggur að ýmsar forsendur kjarasamninganna hafa ekki staðizt. Kaupmáttur hefur aukizt lítillega en forsendur um verðbólgu, gengi krónunnar og fjárfestingar í atvinnulífinu hafa ekki haldið. Samskipti aðila vinnumarkaðarins virðast í sæmilegu horfi og gagnkvæmur skilningur á því að fyrirtækin í landinu eru almennt ekki komin í þá stöðu að eiga fyrir meiri launahækkunum en um hefur verið samið. Enda hefur aldrei neitt vit verið í launahækkunum sem ekki er innstæða fyrir; þær velta annaðhvort út í verðlagið eða leiða til uppsagna. Verkföll við núverandi aðstæður myndu einungis valda enn meira tjóni, bæði fyrir fyrirtækin og starfsmenn þeirra. Frammistaða stjórnvalda hefur hins vegar mikið um það að segja hvort aðilar vinnumarkaðarins hafa trú á að almennar efnahagsforsendur samninganna skáni. Það er rík ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri frammistöðu og samskiptum ríkisstjórnarinnar við bæði atvinnurekendur og verkalýðshreyfingu. Trúnaðurinn í samskiptum samtaka fyrirtækjanna í landinu og stjórnvalda er lítill sem enginn. Það helgast ekki sízt af sviknum fyrirheitum um skatta og gjöld sem áttu að vera tímabundin en ríkisstjórnin hefur ekki tekið af, offorsinu við breytingar á fiskveiðistjórnuninni og fjandskap Vinstri grænna við flest sem heitir erlendar fjárfestingar eða orkufrekur iðnaður. Ríkisstjórnin kennir um erfiðu efnahagsástandi í heiminum þegar hún reynir að réttlæta miklu minni fjárfestingar í efnahagslífinu en að var stefnt, en horfir framhjá eigin vangetu til að búa hér til eftirsóknarvert fjárfestingarumhverfi. Rammaáætlun um virkjanir er enn ekki samþykkt, meira en ári á eftir áætlun, af því að VG og hluti Samfylkingarinnar getur ekki tekið mark á niðurstöðum faglegs stýrihóps og vill setja Þjórsárvirkjanirnar í bið. Það er eitt af því sem stendur fjárfestingu í landinu fyrir þrifum, annað er markviss áætlun ríkisstjórnarinnar um að eyðileggja starfsgrundvöll sjávarútvegsins. Undanfarið hefur trúnaðarbrestur milli ríkisstjórnarinnar og ASÍ líka orðið lýðum ljós. ASÍ birti auglýsingu hér í blaðinu, þar sem ríkisstjórnin var sökuð um vanefndir á loforðum og forseti sambandsins sagði sig úr Samfylkingunni. Svör ríkisstjórnarinnar hafa aðallega verið skætingur. Atvinnuvegaráðherrann æpti á forseta ASÍ í sjónvarpsþætti að það dytti ekki nokkrum manni í hug að lofa því að verðbólgu eða gengisþróun yrði haldið í skefjum á Íslandi. Þá vitum við neytendur og launþegar það. Við þessar aðstæður er ekki bjart útlit um þá þjóðarsátt um frið á vinnumarkaðnum sem margir kalla eftir. Ríkisstjórnin hlýtur að þurfa að teygja sig bæði til atvinnurekenda og launþegahreyfingarinnar til að greiða fyrir slíku. Vandinn er að á kosningavetri er afar ósennilegt að stjórnarþingmenn séu færir um að taka þær skynsamlegu ákvarðanir sem þarf til að skapa atvinnulífinu hagstæðari rekstrarskilyrði og efla fjárfestingu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Ólafur Stephensen Skoðanir Mest lesið ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Að kjósa með nútíma hugsunarhætti Ragnhildur Katla Jónsdóttir Skoðun BRCA Elín Íris Fanndal Jónasdóttir Skoðun Eitt heimili, ein fjölskylda og ein heilsa Pétur Heimisson Skoðun Íslenskufræðingurinn Sigmundur Davíð Hákon Darri Egilsson Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun Það er verið að ljúga að okkur Hildur Þórðardóttir Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Dýrkeyptur aðgangur Stella Guðmundsdóttir Skoðun Aðgangur bannaður Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun
Samtök atvinnulífsins (SA) og Alþýðusambandið (ASÍ) ræða nú saman um forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og hvort til greina komi að segja þeim upp í janúar, eins og heimilt er að gera. Fyrir liggur að ýmsar forsendur kjarasamninganna hafa ekki staðizt. Kaupmáttur hefur aukizt lítillega en forsendur um verðbólgu, gengi krónunnar og fjárfestingar í atvinnulífinu hafa ekki haldið. Samskipti aðila vinnumarkaðarins virðast í sæmilegu horfi og gagnkvæmur skilningur á því að fyrirtækin í landinu eru almennt ekki komin í þá stöðu að eiga fyrir meiri launahækkunum en um hefur verið samið. Enda hefur aldrei neitt vit verið í launahækkunum sem ekki er innstæða fyrir; þær velta annaðhvort út í verðlagið eða leiða til uppsagna. Verkföll við núverandi aðstæður myndu einungis valda enn meira tjóni, bæði fyrir fyrirtækin og starfsmenn þeirra. Frammistaða stjórnvalda hefur hins vegar mikið um það að segja hvort aðilar vinnumarkaðarins hafa trú á að almennar efnahagsforsendur samninganna skáni. Það er rík ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri frammistöðu og samskiptum ríkisstjórnarinnar við bæði atvinnurekendur og verkalýðshreyfingu. Trúnaðurinn í samskiptum samtaka fyrirtækjanna í landinu og stjórnvalda er lítill sem enginn. Það helgast ekki sízt af sviknum fyrirheitum um skatta og gjöld sem áttu að vera tímabundin en ríkisstjórnin hefur ekki tekið af, offorsinu við breytingar á fiskveiðistjórnuninni og fjandskap Vinstri grænna við flest sem heitir erlendar fjárfestingar eða orkufrekur iðnaður. Ríkisstjórnin kennir um erfiðu efnahagsástandi í heiminum þegar hún reynir að réttlæta miklu minni fjárfestingar í efnahagslífinu en að var stefnt, en horfir framhjá eigin vangetu til að búa hér til eftirsóknarvert fjárfestingarumhverfi. Rammaáætlun um virkjanir er enn ekki samþykkt, meira en ári á eftir áætlun, af því að VG og hluti Samfylkingarinnar getur ekki tekið mark á niðurstöðum faglegs stýrihóps og vill setja Þjórsárvirkjanirnar í bið. Það er eitt af því sem stendur fjárfestingu í landinu fyrir þrifum, annað er markviss áætlun ríkisstjórnarinnar um að eyðileggja starfsgrundvöll sjávarútvegsins. Undanfarið hefur trúnaðarbrestur milli ríkisstjórnarinnar og ASÍ líka orðið lýðum ljós. ASÍ birti auglýsingu hér í blaðinu, þar sem ríkisstjórnin var sökuð um vanefndir á loforðum og forseti sambandsins sagði sig úr Samfylkingunni. Svör ríkisstjórnarinnar hafa aðallega verið skætingur. Atvinnuvegaráðherrann æpti á forseta ASÍ í sjónvarpsþætti að það dytti ekki nokkrum manni í hug að lofa því að verðbólgu eða gengisþróun yrði haldið í skefjum á Íslandi. Þá vitum við neytendur og launþegar það. Við þessar aðstæður er ekki bjart útlit um þá þjóðarsátt um frið á vinnumarkaðnum sem margir kalla eftir. Ríkisstjórnin hlýtur að þurfa að teygja sig bæði til atvinnurekenda og launþegahreyfingarinnar til að greiða fyrir slíku. Vandinn er að á kosningavetri er afar ósennilegt að stjórnarþingmenn séu færir um að taka þær skynsamlegu ákvarðanir sem þarf til að skapa atvinnulífinu hagstæðari rekstrarskilyrði og efla fjárfestingu.