Handbolti

Haukar geta orðið deildarmeistarar í kvöld - heil umferð í N1 deild karla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Valli
Haukar geta tryggt sér deildarmeistaratitilinn í kvöld verði úrslitin þeim hagstæð en þá fer fram næstsíðasta umferðin í N1 deild karla í handbolta. Vinni Haukarnir Aftureldingu á sama tíma og nágrannar þeirra í FH tapa stigum á móti HK þá næla Haukar í þriðja titilinn á tímabilinu en þeir hafa þegar unnið bikarinn og deildarbikarinn.

Haukar endurheimtu toppsætið með tveimur öruggum sigrum á Akureyri (26-18) og HK (26-20) í síðustu tveimur umferðum en FH-ingar geta tryggt sér, hreinan úrslitaleik um deildarmeistaratitilinn eftir viku, með því að vinna HK á heimavelli í kvöld. Haukar og FH mætast í Schenker-höllinni á Ásvöllum í lokaumferðinni.

Haukar eru eina liðið sem hefur tryggt sér sæti í úrslitakeppninni en FH, Akureyri og HK geta öll bæst í þann hóp í kvöld. Framarar eru líka með í baráttunni um sæti úrslitakeppninni og komast upp fyrir Akureyri með sigri á norðanmönnum í Safamýrinni í kvöld.

Lokaleikur kvöldsins er síðan á milli Vals og Gróttu í Vodafone-höllinni að Hlíðarenda en Gróttumenn eru þegar fallnir og Valsmenn eiga mjög litla möguleika á sæti í úrslitakeppninni.

Leikir kvöldsins í 20. umferð N1 deildar karla:

FH - HK 19.30 Kaplakriki

Fram - Akureyri 19.30 Framhús

Valur - Grótta 19.30 Vodafone höllin

Haukar - Afturelding 19.30 Schenkerhöllin




Fleiri fréttir

Sjá meira


×