Undanúrslit Poweradebikars karla fara fram í kvöld þegar Keflavík fær KFÍ í heimsókn í Toyota-höllina í Keflavík og Tindastóll tekur á móti KR á Króknum en báðir leikir hefjast klukkan 19.15.
KR-ingar, sem hafa unnið alla átta bikarleiki sína undir stjórn Hrafns Kristjánssonar, eiga titil að verja og gætu komist í Laugardalshöllina í þriðja sinn á fjórum árum. KR sló Tindastól út í undanúrslitunum í fyrra en sá leikur fór fram fyrir sunnan.
Nú mætast liðin í Síkinu á Sauðárkróki og Stólarnir geta þar komast í bikarúrslitaleikinn í fyrsta sinn í sögu félagsins. Tindastóll hefur tapað fjórum sinnum í undanúrslitum en aldrei verið á heimavelli.
Keflavík og KFÍ hafa beðið mislengi eftir að komast í úrslitin. Keflavík hefur tapað tveimur síðustu undanúrslitaleikjum sínum og voru síðast í höllinni fyrir sex árum en Ísfirðingar komust í fyrsta og eina skiptið í bikarúrslit árið 1998.

