Handbolti

Afturelding og Valur með sigra í handboltanum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Ernir
Karlalið Aftureldingar og kvennalið Vals unnu sigra á æfingamótum í handbolta sem lauk um helgina.

HK lagði Stjörnuna 29-24 í lokaleik UMSK mótsins sem fram fór í Digranesi. Eyþór Magnússon skoraði sex mörk fyrir HK en Þröstur Þráinsson var markahæstur Stjörnumanna með sjö mörk.

Afturelding hafði þegar tryggt sér sigur á mótinu en liðið lagði bæði HK og Stjörnuna að velli. HK hafnaði í öðru sæti og Stjarnan í því þriðja.

Kvennalið Vals hafði sigur á Errea-mótinu sem fram fór í Safamýri. Valur vann alla þrjá leiki sína á mótinu og eins marks sigur á Fram í úrslitaleik á laugardaginn 21-20.

Elísabet Gunnarsdótttir skoraði sjö mörk fyrir Fram en Hrafnhildur Skúladóttir var markahæst Valskvenna með sex mörk.

Fram hafnaði í öðru sæti mótsins, HK í því þriðja en Stjarnan í fjórða og síðasta sæti mótsins.

Hafnarfjarðarmótið

Á miðvikudag hefst keppni á Hafnarfjarðarmótinu þar sem FH, Fram, Haukar og Afturelding leiða saman hesta sína.

Dagskrá mótsins má sjá hér að neðan en ókeypis er inn á leikina sem fram fara í íþróttahúsinu við Strandgötu.

Miðvikudagur 29 ágúst

18:00 FH - Fram

20:00 Haukar - Afturelding

Fimmtudagur 30 ágúst.

18:00 Haukar - Fram

20:00 FH - Afturelding

Föstudagur 31 ágúst.

18:00 Afturelding - Fram

20:00 Haukar-FH




Fleiri fréttir

Sjá meira


×