Veiði

80 sentimetra langur sjóbirtingur í Varmá

Hrafn með hænginn stóra. Hann reyndist 80 sentimetra langur og var sleppt að lokinni myndatöku.
Hrafn með hænginn stóra. Hann reyndist 80 sentimetra langur og var sleppt að lokinni myndatöku. Mynd/Veiðfélagið Kvistir
Hrafn H. Hauksson, 15 ára veiðimaður úr Kópavogi, veiddi 80 sentimetra langan og 42 sentimetra breiðan sjóbirting í Varmá fyrir skömmu.

Hrafn, sem er meðlimur í Veiðifélaginu Kvistum, fer iðulega í Varmá til veiða enda áin ein af hans uppáhalds. Á heimasíðu Veiðifélagsins Kvista rekur Hrafn veiðisöguna úr Varmánni þegar risahængurinn beit á.

"Við vorum fisklausir eftir fyrri vaktina og vorum heldur svekktir. Hamborgari og bátur á Tíuni gerði okkur þó aðeins hressari," segir Hrafn á heimasíðu Kvista.

Á seinni vaktinni byrjuðum við í Frost og Funa og það leyndi sér ekki að það var fiskur á svæðinu. Það var fiskur að stökkva stífluna þannig að hér skildi prufa.

"Um leið og flugurnar runnu að hefðbundnum legustað í þessu vatni fór tökuvarinn (í þessu tilviki stór bomber) á kaf og ég brá við. Það var fiskur á og nú byrjuðu lætin. Eftir nokkur stökk og rokur dró ég á land gullfallega 55 cm hrygnu. Hún hafði tekið neðri fluguna, Rolluna nr. 10. Henni var svo sleppt eftir myndatöku og hún var frábær fyrirsæta."

Því næst fóru félagarnir uppá golfvöll en þar er alltaf fiskur í einhverjum hyl, að sögn Hrafn.

"Í einum hylnum voru fiskar að stökkva. Einn nýlegur og annar nokkuð leginn þannig að við eyddum nokkrum tíma þarna. Þeir voru að stökkva alveg efst í hylnum, nánast á grynningum fyrir ofan hylinn," segir í frásögn Hrafns. Eftir að hafa kastað sex flugum setti hann tvær óalgengar flugur undir, appelsínugula fluga frá Sveini Þór Arnarssyni og furðulega græna púpu sem hann hafði sjálfur hnýtt.

"Eftir nokkur köst var rifið all hressilega í og ég fann strax að þetta var stór fiskur. Hann stökk aldrei heldur hélt sig á botninum og þumbaðist. Hann var rosalega sterkur og reyndi að komast upp úr hylnum! Flestir fiskar sem ég hef sett í æða niður úr hyljunum en þessi fór uppúr honum! Bremsan var hert til muna og ég reyndi að koma í veg fyrir að hann gæmist upp á grynningarnar. Það tókst og hann hélt áfram að kafa niðrí hylnum."

Eftir um korters baráttu sáu þeir fiskinn í fyrsta sinn: "...og góðan daginn!!! Hann var risastór!"

Hrafn stressaðist allur upp því fiskurinn var farinn að þreytast og sló hausnum til og frá í bakkann. Núna var mesta hættan á að missa hann þannig að Hrafn og Jóhann F. Guðmundsson félagi hans önduðu varla af spenningi.

"Eftir að hafa leitað töluvert í bakkann var hann orðinn mjög þreyttur og ég togaði hann til Jóa. Eftir tvær misheppnaðar tilraunir tókst Jóa að sporðtaka fiskinn. Jói náði varla utan um styrtluna á honum! Þetta var spikfeitur hængur, aðeins farinn að taka lit. Við mældum hann í þvers og kruss. Útkomman var 80 cm langur með 42 cm í ummál. Minn stærsti birtingur og það á fimmuna. Hún stóð sig með prýði eins og vanalega," segir í frásögn þessa fimmtán ára, að verða sextán ára, gamla veiðimanns.

Söguna í heild sinni má lesa á vef Veiðifélagsins Kvista.






×